Gera þarf ítarlega rannsókn á fölsunum á verkum eftir Stórval, að mati formanns Sambands íslenskra myndlistarmanna, sem segir málið bæði sorglegt og stórskaðlegt. Afkomendur listamannsins íhuga að grípa til aðgerða.

Héraðssaksóknari hefur til skoðunar mál þar sem talið er að málverk eftir Stefán frá Möðrudal, Stórval, hafi verið fölsuð. Í fréttum í gær kom fram að uppboð á tveimur slíkum verkum var stöðvað á mánudag. Talið er að falsanirnar séu nýjar og óttast er að fjölmörg slík verk séu í umferð.

„Þetta er fyrst og fremst sorglegt og alveg stórskaðlegt mál,“ segir Anna Eyjólfsdóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna. „Þetta er í rauninni það versta sem getur komið fyrir. Og í þessu litla landi og þessu litla samfélagi okkar, þá er þetta bara fáránlegt. Og enn þá fáránlegra að mönnum skuli detta í hug að þeir komist upp með þetta.“

Samkvæmt upplýsingum frá Gallerí Fold hefur verið töluvert um það í dag, að fólk sem keypt hefur verk á uppboðum setji sig í samband við fyrirtækið, með áhyggjur af verkum sem það hefur keypt. Jóhann Ágúst Hansen, framkvæmdastjóri, segir að tekist hafi að róa viðskiptavinina og að í engu tilfelli sé talið að viðkomandi verk sé falsað.

„En þetta sannar, eins og svo oft áður, að það er þessi blessaða gróðrafíkn sem ræður öllu. Líka í þessu. Nú eru menn að falsa verk, bara til þess að græða á því,“ segir Anna.

„Eyðilegging“

Afkomendur Stefáns eiga höfundarréttinn að verkum hans. Fréttastofa ræddi í dag við Tinnu Stefánsdóttur, langafabarn hans, sem sagði að fjölskyldan muni skoða hvort ástæða sé til að grípa til aðgerða. Sjálfri hafi henni brugðið mjög þegar hún sá fréttirnar í gær.

„Sumir hafa verið að segja að þetta sé góð ábending um hvað hann sé eftirsóknarverður og flottur og allt það. En mér finnst þetta alltaf vera eyðilegging því þetta er bara lítill hluti. Við vitum ekkert hvað er meira. Það gæti verið miklu meira í gangi heldur en þetta,“ segir Anna.

Finnst þér að það þurfi að grípa til einhverra aðgerða, að stjórnvöld eigi að gera það eða lögregla?

„Ég er algjörlega á því. Það þarf að rannsaka þetta mál 100%. Og ef það þarf lögguna, þá á hún að vera þarna.“