„Ég var ekki dolfallin yfir þessari sýningu,“ segir Helga Rakel Rafnsdóttir um Vatnið í náttúru Íslands, fyrstu sjálfstæðu sýningu Náttúruminjasafns Íslands sem var opnuð 1. desember síðastliðinn. Gestir Lestarklefans voru sumpart á öndverðum meiði um ágæti sýningarinnar.

Páll Valsson útgefandi segir það mikið fagnaðarefni að Náttúruminjasafnið sé loksins komið með fast heimili í Perlunni en safnið hafði verið á hrakhólum árum saman þar á undan, jafnvel þannig að safnkostur þess lægi undir skemmdum. „Ég sé ekki betur en að þarna sé komið framtíðarheimili,“ segir Páll og bætir við að Perlan sé eitt helsta kennileiti Reykjavíkur en hafi löngum verið til vandræða vegna þess að þar hafi engin starfssemi þrifist. „Ég sé ekki betur en að þarna fallist þetta í faðma. Og þessi sýning er mjög skemmtileg, fagmannlega unnin, gagnvirknin skemmtileg og fróðleg. Var með börn með mér sem skemmtu sér vel.“

Blaðakonan Júlía Margrét Alexandersdóttir tók undir með Páli og sagði sýninguna góða og gagnvirknina vel unna. „Ég undi mér vel og hefði viljað hafa hana lengri.“ Helga Rakel Rafnsdóttir kvikmyndagerðarkona var hins vegar ekki alveg jafn hrifin. „Ég var ekki dolfallin yfir þessari sýningu,“ segir hún. „Í fyrsta lagi er Perlan svo mikið vandræðahús, mér finnst hljóðvistin vera óþægileg.“ Sumt í sýningunni hafi verið vel unnið en hún hafi verið of stutt og ópersónuleg. „Það var engin nánd við náttúruna, ekkert sem tengdi mig við, ég held að til dæmis hljóðheimurinn hafi haft mikið að segja þar.“

Rætt var um sýninguna Vatnið í náttúru Íslands í Lestarklefanum. Lestarklefinn er umræðuþáttur um menningu og listir sem er sendur út beint á Rás 1 og í mynd á menningarvef RÚV. Hægt er að horfa á þáttinn í fullri lengd, sem og eldri þætti, í Spilaranum