„Það þarf þorp til að ala upp barn, en það þarf tvö þorp til að ala upp tvítyngt barn,“ þetta segir brúarsmiður hjá Miðju máls og læsis og filippseyskur móðurmálskennari. Sjálf á hún son sem talar fjögur tungumál. Tæplega fimmtungur barna í leikskólum Reykjavíkur er af erlendum uppruna og talar tvö eða fleiri tungumál. Brúarsmiðir veita kennurum og foreldrum þessara barna ráðgjöf.
Krefst tíma, vinnu og góðs samstarfs
Það skiptir máli að tvítyngd eða fjöltyngd börn öðlist færni í að tala móðurmál sín, eitt eða fleiri. Það skiptir líka máli, upp á skólagöngu þeirra og þátttöku í samfélaginu, að þau nái góðum tökum á íslensku. Þetta krefst tíma og vinnu og góðs samstarfs milli foreldra og skóla.
Nýlega stóðu Kriselle Lou Suson Jónsdóttir, brúarsmiður hjá Miðju máls og læsis og filippseyskur móðurmálskennari og Magdalena Elísabet Andrésdóttir, pólskumælandi brúarsmiður, fyrir fræðslufundi fyrir foreldra fjöltyngdra barna á borgarbókasafninu í Spönginni.
Miðja máls og læsis er þekkingarteymi á vegum Reykjavíkurborgar sem hefur það hlutverk að veita kennurum og starfsfólki í skóla- og frístundastarfi ráðgjöf og fræðslu. Brúarsmiðir hafa það hlutverk að styðja við foreldra og kennara barna af erlendum uppruna, þá sinna þeir svokallaðri millimenningarfræðslu.
Mikilvægt að foreldrar séu málglaðir
Foreldrarnir á fundinum í Spönginni deildu reynslu sinni af því að ala upp fjöltyngd börn á íslandi, börn sem tala þýsku, arabísku, japönsku, frönsku, pólsku og fleiri tungumál. Þeir viðruðu áhyggjur, ræddu álitamál, sögðu frá skemmtilegum atvikum og spurðu spurninga. Kriselle ræddi um mikilvægi þess að tala mikið við börnin, lesa fyrir þau, jafnvel sömu bækurnar aftur og aftur, að foreldrar tali við sjálfa sig fyrir framan börnin, um það sem þeir séu að gera hverju sinni, það sé mikilvægt að foreldrar fjöltyngdra barna séu málglaðir.
Talar pólsku og íslensku við dóttur sína - allt eftir aðstæðum
Anna Maria Miłosz frá Póllandi er ein þeirra sem sat fundinn. „Ég er bara rétt að byrja á þessari braut, dóttir mín verður þriggja ára, er búin að vera í leikskóla í tvö ár, fékk pláss þegar hún var eins árs. Mér finnst leikskólinn sem hún er á núna og sá sem hún var á áður, þeir voru báðir æðislegir, mikill stuðningur og gengur ótrúlega vel að tala við starfsfólkið. Svo það sem Reykjavíkurborg er að bjóða foreldrunum, eins og viðburðir á bókasöfnum og listasöfnum og móðurmálssamtökin, þau gera mjög mikið. Ég reyni að safna upplýsingum um hvar viðburðirnir eru og mæta á þá.“
Anna Maria talar pólsku við dóttur sína en pabbi hennar sem er íslenskur talar íslensku. Þegar fjölskyldan er hluti af stærri hóp, þar sem allir eru að ræða sama málefni á íslensku, talar Anna Maria líka íslensku við dóttur sína.
Hún reynir að sjá til þess að dóttir hennar fái tækifæri til að tala pólsku utan skóla. „Að hún umgangist börn sem eru pólsk eins og hún og Skype eða Facetime með fjölskyldu úti í Póllandi. Hún les bækur á pólsku, við erum að fara á bókasafnið og ná í þær og barnaefni, helst líka á pólsku.“
Hvað ef foreldrarnir eru líka tvítyngdir?
Kriselle og Magdalena hvetja foreldra sem þær hitta til að setja málstefnu fyrir fjölskylduna, líkt og Anna Maria hefur gert. Að fjölskyldumeðlimir komi sér saman um hverjir tali hvaða mál við hvern og við hvaða aðstæður. Þetta sé ekki alltaf einfalt, enda foreldrarnir stundum tvítyngdir líka. „Hvaða tungumál velja þau þá?
Kriselle segir suma foreldra, sem tala íslensku sem annað mál, velja að tala íslensku við börnin sín, en ekki móðurmál sitt. Þetta beri að virða. Brúarsmiðirnir ráðleggja þó foreldrum að tala það mál sem þeir hafa best vald á. „Það sem kemur náttúrulega og tengist hjartanu og tilfinningum. Það er mjög mikilvægt. Svo fer það bara eftir foreldrum, kannski tala þau íslensku sem annað mál og það á að vera í lagi að tala íslensku við barnið,“ segir Kriselle. Magdalena hefur valið að fara þessa leið. „Mín reynsla er sú að maðurinn minn er íslenskur og við kjósum að tala íslensku heima, auðvitað á ég fjölskyldu líka í Póllandi svo börnin mín heyra þegar ég tala pólsku.“
Akademíska tungumálið þurfi að vera sterkt
Kriselle bendir á að málörvunin komi ekki bara frá foreldrum. Foreldrar þurfi líka að tryggja málörvun utan heimilis, í frístund, að börnin eigi íslenskumælandi vini, að börnin sjái leikrit á íslensku eða fari á bókasafnið. „Það er alls konar sem er hægt að gera til að örva málið, það eru ekki bara foreldrarnir þó þeir gegni mikilvægu hlutverki í því. Við þurfum að hugsa þetta þannig ef við erum að ala upp tvítyngd börn að það er talað um að það þurfi eitt þorp til að ala upp eitt barn en það þarf tvö þorp til að ala upp tvítyngt barn. Það er kannski of mikið að krefjast þess að eitt foreldri eða tveir foreldrar kenni börnum sínum heilt tungumál. Það þarf bækur, það þarf samfélag, það þarf móðurmálskennslu. Við þurfum að tryggja að barnið sé í ríkulegu málumhverfi, sérstaklega með íslenskuna af því í grunnskólum eru börnin bara að læra stærðfræði, samfélagsfræði, efnafræði, náttúrufræði og fleira á íslensku. Þau læra ekki efnafræði á pólsku. Þess vegna þurfum við að tryggja að akademískt tungumál barnanna sé sterkt.“
Lærir fjögur tungumál
Foreldrar þurfa sum sé að tryggja aðgengi barnanna að tveimur þorpum, tveimur samfélögum og það að læra tvö tungumál krefst mikils tíma í hvoru málumhverfi, margra endurtekninga. Þess að foreldrar lesi sömu bókina aftur og aftur fyrir barnið. Sonur Kriselle talar fjögur tungumál, það má því kannski segja að hún þurfi fjögur þorp. „Í fjölskyldunni minni tala ég bara filippseysku við son minn, maðurinn minn sem er frá Spáni talar spænsku við son okkar, við hjónin tölum saman ensku og við tölum íslensku í samfélaginu. En það er ekki bara ég sem er að kenna barninu filippseysku. Það er móðurmálskennsla, þá eru sjálfboðaliðakennarar að kenna filippseysku og spænsku líka á laugardögum. Það er rosalega flott þorp eiginlega; bækur, myndbönd og alls konar. Aftur á móti er íslenska hans sterkasta akademíska mál, mikilvægt skólamál hans.“
Hafa sjaldnast jafnt vald á báðum eða öllum tungumálum
Þær segja mikilvægt að börnin verji miklum tíma í hverju málumhverfi fyrir sig og nái að aðskilja tungumálin sem þau eru að læra. Í fjölmenningarstefnu Reykjavíkurborgar er til dæmis talað um að börn þurfi að verja helmingi vökutíma síns í íslensku málumhverfi til að ná góðum tökum á íslensku.
Reykjavíkurborg leggur áherslu á virkt tvítyngi, að börnin noti bæði móðurmál sitt og íslensku í sínu daglega lífi. Tvítyngi þýðir ekki endilega að börnin hafi jafnt vald á báðum málunum, það er óalgengt.
Lausnin ekki fólgin í að styrkja bara íslenskuna
Rannsóknir sýna að nemendum sem tala íslensku sem annað mál, farnast ver í skólakerfinu og þeir fara síður í framhaldsskóla. En hvað þarf að gera til að breyta þessu? Kriselle segir að lausnin felist ekki í því að styðja annað hvort betur við móðurmál barnanna eða íslenskuna, það þurfi að styrkja hvoru tveggja og foreldrar þurfi að vera virkir í því.
Vilja upplýsingar um prófin sem lögð eru fyrir börnin
Það eru lögð ýmis próf fyrir barnið í leikskólanum sem meta málskilning, orðaforða og fleira. Kriselle segir mikilvægt að stimpla börnin ekki út frá niðurstöðum þessara prófa. Magdalena segir að foreldrar þurfi að fá upplýsingar um þessi próf og hvernig megi nýta niðurstöður þeirra. „Hvernig er hægt að bæta við, hvernig er hægt að hjálpa barninu til að læra tungumálið. Stundum vita foreldrar ekki hvernig þeir geta gert það, hvað er hægt að gera. Stundum vantar upplýsingar um þessi próf ekki bara í leikskólanum, líka í grunnskólanum. Þess vegna förum við saman í þessa fræðslu til foreldra og segjum þeim hvernig þeir geta hjálpað barninu með móðurmálið og íslenskuna,“ segir Magdalena.
Heppin að hafa fjöltyngda Íslendinga
Kriselle segir mikilvægt að sérfræðingar, foreldrar og skólar tali saman um hvernig skuli efla tungumálafærni barnanna sem heild. Þetta sé stórt samvinnuverkefni. „Það er bara mjög björt framtíð Íslands að hafa fjöltyngda Íslendinga,“ segir Kriselle. „Sammála,“ segir Magdalena.