„Í hverri viku koma á safnið hundrað börn sem eru búin að lesa allar bækur á safninu sem þau hafa áhuga á,“ segir Dröfn Vilhjálmsdóttir bókavörður á bókasafni Seljaskóla í Reykjavík.
Dröfn segir að á safnið komi líka önnur hundrað börn sem eru búin að lesa allar léttlestrarbækurnar og fyrstu tvær bækurnar í einhverri seríu og þá sé ekkert að hafa. „Ég vildi að það kæmi út ein ný bók í hvert sinn sem ráðamenn nefna orðið átak í tengslum við bækur, börn og íslenska tungu og að það þurfi að efla skólabókasöfnin,“ segir Dröfn.
Það er ekki svo langt síðan bóklestur var nánast eina afþreyingin sem börn réðu sjálf. Nú er öldin önnur og með einum smelli á snjallsíma eða tölvu standa þeim til boða heilu heimarnir af margvíslegu afþreyingarefni, algerlega sniðnu að þeim áhugamálum sem hvert barn hefur óafvitandi upplýst með notkun sinni og fátt út fyrir það. „Þess vegna eru bækur og bóklestur í ákveðinni hættu. Það er svo einfalt að sía og horfa bara á það sem þú þekkir fyrir og veist fyrir fram að þú hefur gaman af.“
Norska leiðin fýsileg
Í bókasafni Seljaskóla hefur Dröfn skapað sannkallaðan ævintýraheim enda á safnið að vera þjálfunarmiðstöð fyrir ímyndunaraflið og þar eru bækurnar sjálfar mikilvægasta tækið. Andspænis framboðinu í snjallsímanum verður að vera til nóg af bókum af öllum hugsanlegum gerðum, léttlestrarbækur, fyndnar bækur, spennubækur, framhaldsbókaflokkar, þykkar bækur og bækur með myndum.
Dröfn segir að það sé ekki hægt að álasa bókaútgefendum fyrir að gefa ekki út fleiri bækur fyrir börn því þær standa tæplega undir kostnaði. Dröfn bendir því á svokallaða norska leið. Þegar ljóst varð að það dró úr bóklestri barna og ungmenna í Noregi ákvað ríkið að styðja við útgáfu barnabóka og skólabókasöfn með því að kaupa ellefu hundruð eintök af nær öllum útgefnum bókum og tryggja þannig aukna útgáfu barnabóka, þýddra og frumsaminna.
Eins og bíómynd í hausnum
Forlög eins og Bókabeitan og Rósakot, sem af eldmóði, eins og Dröfn orðar það, gefa út barnabækur allan ársins hring, gefa tilneydd út fullorðinsbækur, glæpasögur, til að fyrirtækið standi undir sér. Á síðasta ári gengu í gildi tvær reglugerðir til stuðnings bókaútgáfu. Annars vegar um sjóð sem ætlað er að styrkja útgáfu barnabóka, skrif, þýðingar og myndskreytingar. Hins vegar um almennt endurgreiðslukerfi kostnaðar við útgáfu bóka líkt og hefur tíðkast í kvikmyndagerð. Þetta er prýðilegt, að mati Drafnar, en það hefði þurft að skilyrða ákveðinn hluta þessarar endurgreiðslu við útgáfu barna- og unglingabóka.
Að lesa er eins og að vera með bíómynd í hausnum, segir Sölvi Þór Jörundsson Blöndal, nemandi í Seljaskóla, og þau Eygló Kristinsdóttir, Rakel Emma Róbertsdóttir og Lúkas Myrkvi Gunnarsson taka undir það og segja að það sé geggjað að lesa.
Þau Lúkas, Sölvi, Rakel og Eygló lesa alls konar bækur. Spennandi bækur eru í uppáhaldi en líka fyndnar bækur og sumum þykja fótboltabækur skemmtilegar sem öðrum finnst alls ekki. Þau lesa bækur í skólanum en líka upp í rúmi á kvöldin og foreldrar þeirra flestra lesa líka mikið. Aðspurð um hvernig þau vita hvaða bækur eru til og hvaða bækur eru að koma út sögðust þau taka eftir auglýsingum um krakkabækur fyrir jólin en bókavörðurinn á skólabókasafninu bendi þeim líka oft á bækur.
Rakel Emma Róbertsdóttir er sú elsta í hópnum og hún er þegar farin að lesa á ensku en segir þó þægilegra að lesa á íslensku. Sölvi Þór segir að hann fari örugglega bráðum að lesa á ensku. Væntanlega er ástæðan fyrir því að íslenskum bókaormum þykir sjálfsagt að brátt komi að því að þau fari að lesa bækur á ensku sú að það er ekki til nógu margar bækur handa þeim að lesa á íslensku eða eins og Rakel Emma orðaði það: „Það er til nóg af bókum, ég er bara búin að lesa þær flestar.“
330 þúsund bækur lesnar í lestrarátaki Ævars vísindamanns
Ævar Þór Benediktsson, rithöfundur og leikari, hefur á síðustu árum verið eins konar holdgervingur baráttunnar fyrir auknum bóklestri barna. Á síðustu tíu árum hefur hann skrifað fjölmargar bækur fyrir börn og fyrir skömmu lauk fimmta og síðasta lestrarátaki Ævars vísindamanns. Þegar allt er talið voru lesnar 330.000 bækur í tengslum við átakið á þessum fimm árum, sumar auðvitað af fjölmörgum, aðrar af einum eða tveimur lesendum.
Það var tilviljun að Ævar Þór varð barnabókahöfundur fyrir tæpum tíu árum og það var líka tilviljun að hann þróaði lestrarátak Ævars vísindamanns fyrir fimm árum. Nú er síðasta lestrarátakinu lokið en Ævar er alls ekki hættur að skrifa bækur fyrir börn.
Bókin alltaf nauðsynlegur valkostur
Ævar Þór hefur skrifað svokallaðar Þín eigin-bækur þar sem lesandinn getur ráðið framvindunni og þá um leið hversu löng bókin er. Þá hefur hann skrifað bækur um strákinn Ævar í ýmsum, oftar en ekki afar ævintýralegum aðstæðum. Ævar Þór hefur fundið mikinn meðbyr með lestrarátakinu, sem byggist á því að lesa sem flestar bækur. Þegar hverju átaki lýkur eru dregnir út verðlaunahafar og verðlaunin eru að verða persóna í nýrri, óskrifaðri bók Ævars Þórs.
Ævar Þór segist hafa fulla trú á bókinni en tilvera hennar eigi örugglega eftir að breytast eitthvað með áframhaldandi þróun snjalltækja. Bókin verði hins vegar alltaf til enda nauðsynlegur valkostur við mötun snjalltækjanna, á meira af því sem við þegar þekkjum, en líka til þess að fá endrum og sinnum frið fyrir áreitinu sem snjalltækjunum fylgir.