Það að málað hafi verið yfir sjómanninn á gafli sjávarútvegshússins hefur vakið mikla athygli í samfélaginu. Guðmundur Oddur Magnússon, prófessor í Listaháskóla Íslands, telur að það sé ekki síst vegna myndefnisins – frekar en gæðum verksins – sem að það veki upp svona heitar tilfinningar.
Veggmyndin var samstarfsverkefni Iceland Airwaves hátíðarinnar og Urban Nation vegglistahópsins og hluti af svokölluð „veggjaljóðlistar“-verkefni þar sem vegglistamenn gera myndir innblásnar af tónlist hljómsveita á hátíðinni. „Nú þarf að hafa í huga að það er ekki staðið að þessu sem list í opinberu rými og þetta er ekki keypt verk, Airwaves er með breska listamenn á sínum snærum og þá vantar vegg,“ segir Guðmundur Oddur Magnússon, eða Goddur, í samtali við Lestina.
Aðspurður um það hvers vegna hvarf sjómannsins hafi vakið svo mikla athygli sem raun ber vitni segir Goddur að honum verði hugsað til bandaríska popplistamannsins Andys Warhols: „Sem fannst alltaf svo æðislegt þegar fólk sýndi tilfinningar gagnvart verkunum, vildi annað hvort rífa þau niður eða hefja þau upp til skýjanna eða jafnvel fikta í þeim, sjaldan væru verk betur heppnuð en þegar þau ná inn í tilfinningalíf fólks. Það er þá örugglega eitthvað þarna á bakvið, og ég held að það sé ímyndin eða trúarímyndin um íslenska sjómanninn.“
Heimurinn fyrir aftan augun
Goddur heldur því fram að það skipti meginmáli að hér er um mynd af sjómanni að ræða, myndin á vegg Sjávarútvegshússins hafi verið ,,illústrasjón eða myndlýsing af sjómanni, ekki endilega eitthvað listrænt afrek en íkonið mjög skýrt, og fer ekkert á milli mála. Og beinasta leiðin inní tilfinningalíf fólks, inn í undirmeðvitundina, er einmitt íkonið, því íkonið þýðir beinlínis lyklar að heiminum sem er fyrir aftan augun. Það skiptir öllu máli að þetta sé sjómaður.“
Næsti bær við kits
Rithöfundurinn Bragi Ólafsson steig fram á ritvöllinn lýsti yfir ánægju með hvarf sjómannsins, kallaði hana „verstu tegund af kitsi“ og líkti henni við margfrægar myndir af „drengnum með tárið“. Goddur vill ekki ganga svo langt: „Þetta er auðvitað næsti bær við kits, en mér finnst þetta bara svo lúmskt. Ef þú gerir list það sykursæta að þú færð viðbjóð henni, því þetta er bara sjómaður. Það í sjálfu sér er ekki kits að gera íkonið sjómaður, en það er hvernig þú gerir það sem gerir það að kitsi.“
Goddur telur að það hafi útaf fyrir sig verið rétt að mála yfir sjómanninn, tími verksins hafi verið liðinn. „Þarna var einfaldlega samningur, þeir fengu eitt ár til að hafa þetta verk uppi, það var enginn sem skoðaði það fyrirfram og verkið er ekki keypt. Þess vegna er fáránlegt að tala um höfundarrétt og fullkomlega eðlilegt að loka þessu, og læra af því að ráðuneyti þurfa að standa sig betur í því að fjármagna og stuðla að almennilegri veggjalist á sínum húsnæðum.“