Það mátti ekki tæpara standa í morgun, þegar sementsflutningaskipið Fjordvik var dregið um borð í flutningaflotkví í Hafnarfirði. Hafnarstjórinn segir að mögulega hafi munað korteri að aðgerðin færi í vaskinn. Talsmaður útgerðar skipsins segir að tilfinningarnar séu blendnar eftir aðgerðirnar í dag.

Sementsflutningaskipið Fjordvik strandaði í Helguvík í nóvember. Eftir umfangsmiklar björgunaraðgerðir sem tóku nokkra daga var skipið dregið til Hafnarfjarðar þar sem það hefur verið síðan. Í morgun var svo hafist handa við að draga skipið um borð í 140 metra langa hollenska flutningaflotkví, en til stendur að flytja skipið áleiðis til Belgíu um helgina, þar sem það verður rifið.

„Þetta er mikil nákvæmnisvinna og ég held að það séu hátt í 30 manns, þrír dráttarbátar og fjöldi sérfræðinga sem kemur að því að útfæra þetta,“ segir Lúðvík Geirsson, hafnarstjóri Hafnarfjarðarhafnar. „Þeir eru mjög nákvæmir í þessu Hollendingarnir og eru búnir að halda marga fundi til þess að fara yfir öll sín plögg og leggja fram teikningar af minnstu smáatriðum um hvernig þeir útfæra þetta en þetta eru vanir menn sem hafa verið í þessu lengi og vita alveg hvað þeir eru að gera.“

Mátti engu skeika

Það var ekki tilviljun að dagurinn í dag varð fyrir valinu, enda veðrið með besta móti. Unnið var í kapphlaupi við tímann þar sem sjávarföll skiptu öllu máli. 

Veistu til þess að svona nokkuð hafi verið gert á Íslandi áður?

„Já menn hafa verið að taka skip inn en þetta er í stærra lagi, og sérstaklega vegna aðstæðna þar sem það er fulllestað af sementi. Það er mjög þungt þannig að það má engu skeika í að koma þessu fyrir,“ segir Lúðvík.

Hafist var handa við að draga skipið inn í kvína um klukkan tíu í morgun, og um það bil þremur og hálfum tíma síðar var skipið komið á sinn stað.

„Það mátti ekki tæpara standa. Við höfðum tíma til korter í tvö, hún er að verða hálf, þannig að það eru allir glaðir.“

Undir það tekur Jaaco Gerretsen, sem stjórnaði aðgerðum í dag.

„Við höfðum lítið svigrúm vegna sjávarfallanna. Við biðum í nokkra daga eftir að veðrið skánaði en allt gekk vel og innan þessa knappa tímaramma. Okkur tókst að koma skipinu í flotkvína í tæka tíð.“

Ekki viðbjargandi

Cor Radings, talsmaður útgerðar Fjordvik, segir tilfinningarnar vera blendnar.

„Þetta eru augljóslega engar draumaaðstæður, þegar skipið getur ekki siglt fyrir eigin afli og því miður var nauðsynlegt að draga það burt. Sem betur fer gengu aðgerðirnar vel í dag og við gátum í það minnsta glaðst yfir því á einhvern hátt,“ segir Radings.

Radings segir að hagkvæmara hafi verið talið að flytja skipið í heilu lagi, frekar en að rífa það hér og flytja það svo. Þá hafi það ekki verið talið svara kostnaði, að gera við skipið.

„Eins og við segjum, þá var því ekki viðbjargandi. Því var eina ráðið að endurvinna það í Evrópu.“