35 ára gamall maður með alvarlegan heilaskaða hefur búið á endurhæfingardeild Landspítalans í eitt og hálft ár. Meðaldvalartími þar eru sex vikur. Yfirlæknir á deildinni segir engar lausnir í boði. Móðir mannsins segir að hver vísi á annan.
Fyrir um tveimur árum blæddi inn á heila Einars Óla Sigurðarsonar og eftir aðgerð varð heilinn fyrir miklum súrefnisskorti. Í dag getur hann hvorki hreyft sig né tjáð sig. Fréttastofa sagði sögu hans í apríl í fyrra, en þá hafði Einar Óli dvalið á Grensás, endurhæfingardeild Landspítalans, í átta mánuði. Meðaldvalartími á deildinni er sex vikur og eina úrræðið sem honum bauðst var dvöl á hjúkrunarheimili þar sem meðalaldurinn er 83 ár. Og nú, tæpu ári síðar, er Einar Óli enn á Grensás.
„Þetta er ekki gott mál því að hér er búið að draga úr allri þjónustu og hann á að vera farinn héðan fyrir heilu ári síðan. Og það er svo erfitt að vita ekkert hvað er fram undan,“ segir Aðalheiður Bjarnadóttir, móðir Einars Óla.
Ábyrgðin sett á fjölskylduna
„Það er mjög óheppilegt og mjög vont fyrir hann og hans aðstandendur að fá ekki samastað sem þau óska eftir og hentar honum,“ segir Stefán Yngvason, yfirlæknir á Grensásdeild.
Þið hafið reynt að útskrifa hann?
„Já. Meðferð er löngu lokið. Hann þarf ekki að vera á sólarhringsdeild. Hann þarf að fá búsetuúrræði þar sem hann getur búið og fengið þá þjónustu sem hann þarf.“
Aðalheiður segist hafa talað við alla mögulega aðila í leit sinni að svörum, en án árangurs. Fjölskyldan býr í Mosfellsbæ og þar sem Einar Óli er fatlaður ber sveitarfélagið ábyrgð á að finna úrræði. Um mitt ár í fyrra bauðst honum að fara inn á hjúkrunarheimili þar, sem fjölskyldan samþykkti með ákveðnum skilyrðum. Að lokum var hætt við það því ekki fékkst fjárveiting. „Ábyrgðin er sett á okkur fjölskylduna, að við finnum úrræði fyrir hann. Og það vísar hver á annan. Auðvitað vilja allir gera eitthvað. En það hefur enginn lausn.“
„Vandamálið er fjölþætt,“ segir Stefán. „Einar Óli þarf mikla aðstoð og umönnun og það virðast ekki vera úrræði sem henta honum neins staðar eða að neinn sé tilbúinn til að taka við.“
Skortur á forsjá
Aðalheiður segir að fjölskyldan sé hjá Einari Óla 12 tíma á dag. Ákveðið hafi verið að draga úr þjónustu við hann eftir ákveðinn tíma, og tímum í sjúkraþjálfun meðal annars fækkað. „Ég upplifi mig eins og ég sé komin í mörg störf. Ég er talsmaður hans, ég er sjúkraþjálfinn hans, iðjuþjálfi og talmeinafræðingur,“ segir hún.
Biðlistinn á Grensásdeild er langur og því segir Stefán miklu máli skipta að geta útskrifað sjúklinga hratt.
Finnst þér þetta lýsa vanda heilbrigðiskerfisins vel?
„Þetta er hluti af vandamálinu. Það hefur vantað forsjá í því að byggja upp þjónustu sem augljóslega þarf að vera til staðar,“ segir Stefán.
„Það virðast hvergi vera nein úrræði og starfsmenn eru útbrunnir, eins og aðstandendur, og þá minnkar auðvitað hjá manni vonin,“ segir Aðalheiður.