Mál tveggja fatlaðra kvenna sem sökuðu karlmann um að kynferðisbrot á sumardvalarheimili fatlaðra fyrir rúmu ári, munu ekki fara fyrir dóm. Ríkissaksóknari efaðist ekki um frásögn þeirra en taldi hana mega sín lítils gegn neitun mannsins. Fjallað verður um málið í Kastljósi í kvöld.

Fatlaðar konur eru sá hópur sem líklegast er að verði fyrir kynferðisofbeldi en margt bendir til þess að mál þeirra fái síður framgöngu í réttarkerfinu. Dæmin eru mörg og spanna ár og jafnvel áratugi, eins og rakið verður í Kastljósi næstu daga. Ítrekaðar tilkynningar, kærur og frásagnir af brotum gegn sömu konunni áratugum saman, hafa þannig aldrei ratað fyrir dóm. 

Í Kastljósi í kvöld verður sagt frá máli tveggja fatlaðra kvenna, Kristínar Jónu Þórarinsdóttur og Hönnu Þorvaldsdóttur, sem fyrir rúmu ári kærðu sama manninn fyrir kynferðisbrot. Þær Kristín og Hanna, sem báðar glíma við þroskaskerðingu eru á fertugs og sextugsaldri. Báðar lýstu þær því hvernig maðurinn hefði áreitt þær kynferðislega meðan þær dvöldu á heimili hans og eiginkonu hans, þar sem rekið var sumardvalarheimili fyrir fatlaða í rúman áratug.

Frásögn þeirra beggja af brotunum er um margt lík, en þær þekkjast ekki og voru ekki samtímis á heimilinu. Að lokinni rannsókn á ásökunum þeirra, þar sem meðal annar voru kallaðir til tveir sérfræðingar til að meta framburð þeirra og upplýsingar komu fram um fleiri ásakanir gegn manninum, ákvað Ríkissasóknari þó að fella mál þeirra gegn manninum niður nú fyrir skemmstu. Mál þeirra þóttu þannig ekki líkleg til sakfellingar fyrir dómi. Enda neitaði maðurinn staðfastlega sök.

„Það er ekki tekið mark á þeim og öllum þeim gögnum sem styðja framburð þeirra. Það er ekki ásættanlegt,“ segir Þóra Marý Arnórsdóttir, forstöðumaður málefna fatlaðra hjá Ísafjarðarbæ, en Kristín Jóna er skjólstæðingur hennar.

Í spilaranum hér fyrir ofan má sjá brot úr viðtali við Þóru, Ólöfu Björnsdóttur, móður Hönnu, og loks viðbrögð Hönnu og Kristínar við niðurfellingu málsins. Þær eru meðal viðmælenda í þætti kvöldsins.

Annað kvöld mun Kastljós fjalla nánar um þessi mál og meðal annars upplýsingar um áratugalanga þrautagöngu þroskaheftrar konu sem sætt hefur ítrekuðu kynferðisobeldi og allar tilraunir til að koma málunum fyrir dóm, hafa reynst árangurslausar.