Þúsundir kvenna lögðu niður störf í dag og fóru á samstöðufundi í tilefni kvennafrídagsins. Forsætisráðherra vonar að konur þurfi ekki að flykkjast út á götur eftir önnur 40 ár til þess að mótmæla því misrétti sem þær búa við. Ung stúlka sem mætti á baráttufund á Arnarhóli segir það ósanngjarnt, að konur séu ekki með jafnhá laun og karlar.

Konur hafa undanfarin ár lagt niður störf á þeim tíma kvennafrídagsins, þegar vinnuframlagi þeirra er lokið miðað við hlutfallsleg laun karlmanna á vinnudegi frá 9 til 17. Árið 2005 lögðu konur niður vinnu klukkan 14:08. Árið 2010 var tímasetningin 14:25. Fyrir tveimur árum lögðu konur niður vinnu klukkan 14.38. Þó bilið minnki stöðugt munar enn þónokkru, en í dag lögðu konur niður störf klukkan 14:55. Og það gerðu konur meðal annars í höfuðstöðvum Arion banka í Borgartúni.

„Okkur finnst auðvitað mikilvægt á kvennafrídeginum að konur sýni samstöðu í tilefni dagsins,“ sagði Brynja Gröndal, mannauðsstjóri Arion banka, skömmu áður en hún yfirgaf höfuðstöðvarnar ásamt samstarfskonum sínum. Þær héldu sem leið lá á baráttufund á Arnarhóli ásamt þúsundum annarra kvenna. Þar á meðal var Unnur Ösp Stefánsdóttir, leikkona. „Það er algjörlega óásættanlegt og maður trúir því eiginlega ekki árið 2018 að við séum aðeins með 74% af launum karla. Þannig að það var ekki um neitt annað að ræða en að ganga út og koma og mótmæla,“ sagði Unnur Ösp.

Þurfi ekki önnur 40 ár

„Ég segi bara til hamingju með daginn við allar konur,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sem var einnig stödd á Arnarhóli. „En um leið vil ég rifja það upp að fyrsta kvennafríið var haldið 1975, það var áður en ég fæddist. Og ég vona svo sannarlega að eftir önnur 40 ár þurfi konur ekki að flykkjast út á götur til þess að mótmæla því misrétti sem þær búa við í samfélaginu í dag.“

Og hin átta ára gamla Steinunn Ingvadóttir var líka stödd á Arnarhóli.

„Það er verið að mótmæla held ég því að konur fá ekki jafnmikil laun og karlar.“

Hvers vegna skiptir það máli?

„Vegna þess að það er bara ósanngjarnt fyrir konur,“ sagði Steinunn.

Á Ísafirði fóru konur í samstöðugöngu sem endaði í Alþýðuhúsinu. Þar á meðal var Anna Kristín Ásgeirsdóttir sem var á samskonar fundi á Ísafirði fyrir 44 árum. „Þá var ég bara 16 ára og mamma mín, verkakonan, hélt ræðu. Og ég man að mér fannst mamma svolítið flott af því að hún var ekkert vön að halda ræður. Og hún var bara 56 ára þá og nú er ég orðin eldri en hún var. Þess vegna er mér svolítið hlýtt að gera þetta aftur núna vegna þess að ég held að það þurfi endalaust að minna á og fá konur til þess að rísa upp með sjálfum sér,“ segir Anna Kristín.

Rót vandans í uppeldinu

Og á Akureyri létu konur nístingskulda ekki stoppa sig og sameinuðust á Ráðhústorgi. Vel var mætt og mikill hugur í konum sem fluttu og hlýddu á ávörp og baráttusöngva. Og baráttan einskorðast ekki við bætt kjör. „Það er verið að mótmæla misrétti yfir höfuð gagnvart konum, kynferðislegri áreitni og svo mörgu og mörgu,“ sagði Margrét Jónsdóttir.
 
Á Reyðarfirði Bauð Alcoa Fjarðaál austfirskum konum til fundar eftir að þær lögðu niður störf. Komið hefur fram að hvergi er munur á heildarlaunum karla og kvenna meiri en á Austurlandi. 

„Ég tel að rót vandans liggi í því hvernig við ölum upp börnin okkar. Hvers vegna er það tabú að gefa stráknum dúkku. Á hann þá bara ekkert að hugsa um fjölskylduna sína,“ segir María Ósk Kristmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Fjarðaáli.