Það var ekkert alveg víst hvort að rithöfundurinn Friðgeir Einarsson hefði tíma til að hitta útsendara Víðsjár á Rás 1 þegar leitað var eftir því, en það hafðist. Hugmynd um kaffibolla breyttist í ísbíltúr. Friðgeir hefur nýlega sent frá sér sitt annað smásagnasafn, sem heitir Ég hef séð svona áður, en það er skærappelsínugul bók með mynd af stóru pálmatré þó að söguefnið sé heldur frábreytt.
„Þetta eru smásögur sem fjalla um ferðalanga, túrista,“ segir Friðgeir í bílnum á leið í ísbúðina. „Þær fjalla um svona fólk á ferðalögum, en sumir eru kannski ekki bókstaflega á ferðalögum heldur bara heima hjá sér, en hlutirnir koma þeim samt spánskt fyrir sjónir. Umfjöllunarefnið um það að láta hlutina koma sér framandi fyrir sjónir er það sem ég er að taka utan um í þessari bók. Og eiginlega öfugt, það hvernig það sem maður sér á ferðalagi getur farið að verða mjög hversdagslegt. Ferðalagið er, finnst mér, að verða svona næstum því hversdagslegt í lífi nútíma Íslendingsins. Að fara í einhverja helgarferð eða á einhverja ráðstefnu er bara orðið eins og að fara í Bónus, eða kannski frekar í IKEA eða Costco. Fólk er jafnvel bara spenntara yfir því að fara í Costco en að fara til Kaupmannahafnar, liggur við.“
Það dreymir engan um þetta
„Ég er hrifinn af svona hlutum sem eru ekki beint sögur og eru kannski í eðli sínu „antíklímatískir“ eða óspennandi. Það sem er hér í dag fyrir utan bílrúðuna okkar má taka sem dæmi,“ segir Friðgeir í framsætinu. „Það hefur rignt hérna ofan í svifrykið þannig að það myndast svona tjörudrulla. Það er í rauninni veruleikinn, en draumurinn um veruleikann er eitthvað allt annað. Það er enginn sem lætur sig dreyma um þennan veruleika.“
Auðvelt að drulla sér úr smásögunni
Jarðarberjaís með lakkrísdýfu er val Friðgeirs þegar í ísbúðina í Skeifunni er komið. Hann segir að sín söguefni geti komið nokkurn veginn alls staðar frá. „Kannski koma þau ekki síst á ferðalögum þegar maður er gestur og fer á framandi slóðir. Maður svona kveikir á einhverju sem maður er ekki venjulega með kveikt á, nánast eins og upptökutæki. Á ósköp venjulegum stöðum, eins og einhvers konar Skeifu Svíþjóðar, geta sögurnar komið til manns og þá sér maður kannski þessa hérna Skeifu í nýju ljósi,“ segir Friðgeir og horfir út um glugga ísbúðarinnar.
Nú er Ég hef séð svona áður annað smásagnasafn Friðgeirs en í fyrra kom hans fyrsta skáldsaga út sem heitir Formaður húsfélagsins.
„Já og nei,“ er svarið þegar hann er spurður um það hvort honum henti betur að skrifa stuttar sögur. „Mér finnst smásagan að mörgu leyti skemmtileg af því að maður hefur einhvern veginn minni skyldur gagnvart stóru söguefni. Þegar ég var að skrifa skáldsöguna þá upplifði ég að ég væri að skrifa meira en mig langaði af því að ég þurfti að vera að hugsa um einhverjar tengingar og brýr í textanum. Inn í smásöguna getur maður komið hvenær sem er og farið þegar manni er farið að leiðast. Þá getur maður bara drullað sér. Mér finnst það dálítið áhugavert.“
Flóðið
En hvernig er það að taka þátt í jólabókaflóðinu og vera í samkeppni við aðra höfunda um athygli og kaupmátt landsmanna? „Mér finnst það ekkert svo leiðinlegt,“ svarar Friðgeir. „Mér finnst gaman að lesa upp, enda kem ég úr leikhúsinu. Svo finnst mér þessi pæling með athygli vera eitthvað sem ég ræð ekki almennilega við. Það sýnir kannski bara hversu lítið rándýrseðli ég hef sem markaðsmaður. Ég held að bræðra- og systralag rithöfunda sé meira en fólk heldur yfirleitt.“
Hér fyrir ofan má fara með í ísbíltúrinn með Friðgeiri Einarssyni. Í viðtalinu sem kemur úr þættinum Víðsjá á Rás 1 má til dæmis heyra vangaveltur um að tala saman í bíl og leikhljóð sem sérstaklega eru unnin af Friðgeiri og bera heitið „Maður borðar ís.“