Þriðja hver kona í heiminum er beitt kynbundnu ofbeldi og um 120 milljónir núlifandi stúlkna hafa verið beittar kynferðislegu ofbeldi. Þetta er á meðal þess sem UN Women á Íslandi vill vekja athygli á í nýrri herferð, þar sem allir eru hvattir til að fordæma kynbundið ofbeldi.

UN Women á Íslandi hrinti í gær af stað herferðinni „Kynbundið ofbeldi er nær en þú heldur“. Auglýsing fyrir herferðina sem var frumsýnd í gær hefur vakið mikla athygli, en þar má sjá nokkra karlmenn lesa frásagnir tveggja kvenna af kynbundnu ofbeldi. Í lokin uppgötva svo þeir sem lesa frásagnirnar, að önnur kvennanna situr beint á móti þeim.

„Það var erfitt að lesa þetta og alveg til þess að setja mann fram af brúninni að gefa það upp að maður er búinn að lesa hryllingssögu manneskju sem rétti þér umslagið og situr á móti þér. Þá verður þetta allt raunverulegt og áþreifanlegt,“ segir Kristinn Óli Haraldsson, betur þekktur sem Króli, tónlistarmaður og einn þeirra sem koma fram í auglýsingunni.

„Þetta verður sambland af einhverju máttleysi og samúð en líka bullandi reiði sem maður getur einhvern veginn ekkert gert með,“ segir Sigurður Svavarsson, bókaútgefandi, sem einnig kemur fram í auglýsingunni.

Breytir vonandi einhverju

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, segir að ákveðið hafi verið að beina sjónum að karlmönnum í átakinu. „Við sáum það í Metoo-byltingunni að nánast hver einasta kona á Íslandi, hvaða stétt eða stöðu sem hún tilheyrir, hefur upplifað kynbundið ofbeldi eða áreitni. Og til þess að breyta þessu verðum við að fá karlmenn í lið með okkur. Þess vegna ákváðum við að fara þessa leið og einblína dálítið á karlmenn, hafa þá í forgrunni verkefnisins. Þannig að þeir gætu sett sig í spor kvenna.“

Samtökin hvetja fólk, bæði karla og konur, til þess að fara inn á heimasíðu þeirra, og skrifa undir fordæmingu á kynbundnu ofbeldi.

„Ég held að viðbrögðin okkar segi nákvæmlega hvað okkur finnst um þetta, og hvað öllum á að finnast um þetta,“ segir Króli. „Og vonandi verður þetta til þess að breyta einhverju,“ segir Sigurður.