„Parísarsáttmálinn felur í sér falskar vonir, og fjallar eiginlega um að gera ekki neitt, eða að gera eitthvað seinna,“ segir Andri Snær Magnason í fyrsta þætti Hvað höfum við gert? sem var frumsýndur á RÚV í gær.
Þátturinn fjallar um áhrif loftslagsbreytinga af mannavöldum. Hann hefur vakið mikla athygli og hægt er að horfa á hann í heild sinni í spilaranum. Helsta markmið Parísarsáttmálans, sem var samþykktur 2015, var að halda hnattrænni hlýnun undir tveimur gráðum frá því áður en iðnbyltingin hófst. „Þessar loftslagsráðstefnur hafa verið bundnar við stjórnmálamenn og aðila í viðskiptalífinu, almenningur hefur ekki skynjað mikið hvað er verið að tala um þegar það er talað um 1,5 gráðu hækkun á hita,“ segir Andri Snær sem er svartsýnn á framhaldið. Ekki einungis þykir honum að löndin sem eru aðilar að sáttmálanum ekki taka framkvæmd hans nógu alvarlega, heldur líka að samkomulagið sjálft gangi ekki nógu langt.
„Það má segja að Parísarsáttmálinn sé svipað og ef við hefðum ekki bannað kjarnorkusprengjur, heldur hefðum reiknað okkur inn í þolanlega geislavirkni fyrir barnabörnin. Ekki sprengt allar sprengjurnarnar í einu en það væri í lagi að nota eina á fimm ára fresti. Þá eru menn að semja um þjáningu fyrir hönd fólks sem er ekki fætt,“ segir Andir Snær og er mikið niðri fyrir, segir að bæði 1,5°C og 2°C hækkun feli í sér gríðarlegan sársauka. „Alveg ólýsanlegan sársauka og tjón á lífríki jarðar og búsvæði manna og dýra. Ef við náum einni komma fimm gráðum en ekki tveimur, þá deyja ekki nema 90% af kóralrifjunum! Já frábært, ekki nema 90%, stefnum að því!“
Rætt var við Andra Snæ Magnússon í Hvað höfum við gert? Hægt er að horfa á viðtalið efst í færslunni eða þáttinn í heild sinni í Spilaranum.