Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, telur tillögur átakshóps ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál vera raunhæfar. „Þær eru mjög raunhæfar en lykilatriðið núna er að við nýtum tímann vel. En ég er hins vegar sannfærður um að þetta er mjög gott innlegg í kjaraviðræðurnar á þessu viðkvæma stigi.“

Átakshópurinn skilaði í dag 40 tillögum í sjö liðum um leiðir til úrbóta á húsnæðismarkaði. Lagt er til að hagkvæmum íbúða á viðráðanlegu verði fyrir tekjulága verði fjölgað, að uppbygging almenna íbúðakerfisins haldi áfram, að stuðlað verði að uppbyggingu húsnæðisfélaga að norrænni fyrirmynd sem ekki eru drifin áfram af hagnaði, aukna leiguvernd, bætt aðgengi að upplýsingum um húsnæðismál og að þess verði gætt að uppbygging samgöngumannvirkja og almenningssamgangna fylgi mikilli uppbyggingu íbúða á höfuðborgarsvæðinu og vaxtarsvæðum í kringum borgina. 

Í tillögum hópsins er talað um að skoða verði húsnæðiskostnað í samhengi við til dæmis samgöngukostnað. Í því samhengi er talað um að hraða borgarlínu og efla almenningssamgöngur til dæmis með því að einfalda gjaldssvæði almenningssamgangna á vaxtarsvæðum. 

Hópurinn leggur einnig mikla áherslu á að leitað verði leiða til að lækka byggingarkostnað og stytta byggingartíma, meðal annars með aukinni samvinnu yfirvalda, aukinni áherslu á rafræna stjórnsýslu, einfaldara regluverki og öðrum sértækum aðgerðum til að auka hagkvæmni. 

„Það sem mest er um vert er þetta, að aðilar vinnumarkaðarins og aðrir haghafar, hafa náð saman um þau málefni sem eru brýnust í komandi kjarasamningsviðræðum og það er vel,“ segir Halldór. Tillögurnar hafi tvímælalaust jákvæð áhrif á kjaraviðræðurnar. „En núna kemur að útfærslu og það er á ábyrgð okkar allra að hrinda þessu í framkvæmd hratt og vel.“