Átakshópur stjórnvalda um húsnæðismarkaðinn skilaði 40 tillögum til úrbóta í dag. Aðspurð að því hvort tillögurnar eigi eftir að liðka fyrir lausn í kjaraviðræðum, segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, að með þeim sé kominn góður efniviður til skemmri og lengri tíma.
„Við vitum að húsnæðismálin hafa verið mjög ofarlega á baugi og jafnvel verið kölluð lykill að lausn á kjarasamningum,“ segir hún.
Er sá lykill nú fundinn? „Þarna er lögð mikil áhersla á að bregðast við, bæði til skemmri tíma, það er búið að greina hvað vantar upp á núna til ársins 2022 í auknu framboði á íbúðum og markmiðið er auðvitað að lækka húsnæðiskostnað, ekki síst hjá tekjulægra fólki þannig að við getum tryggt öllum þak yfir höfuðið á viðráðanlegu verði og ég held að þetta séu mjög raunhæfar tillögur.“
Stefnt er að því að á næstu þremur árum takist að leysa úr húsnæðisskorti, að sögn forsætisráðherra. Það sé brýnt úrlausnarefni þar sem allir þurfi að leggja sitt af mörkum og tillögurnar hafi einmitt gert ráð fyrir því.
Ljóst er að til að ná fram úrbótum á húsnæðismarkaði þurfa ríki og sveitarfélög að vinna saman. Katrín segir að tillögum átakshópsins verði skipt upp og aðgerðaáætlanir gerðar í kjölfarið. Þá þurfi að ráðast í gagnasöfnun og stefnumótun hins opinbera til að einfalda alla ferla í húsnæðismálum. „Það er lengri tíma verkefni en því er auðvitað ætlað að koma í veg fyrir húsnæðiskreppur framtíðarinnar.“