Breskur prófessor í taugameinafræði segir ósannað að níu mánaða drengur hafi verið hristur þannig að hann lést árið 2001. Mögulega hafi aðrir þættir orsakað andlát hans. Dagfaðir drengsins, sem var dæmdur í málinu, fer fram á endurupptöku þess á grundvelli framburðar sérfræðingsins.

Dr. Waney Squier hefur rannsakað heila fóstra og ungbarna við Oxford háskóla í 30 ár og hefur lengi verið dómkvaddur sérfræðingur í Bretlandi. Hún  kom hingað til landsins á dögunum og gaf skýrslu fyrir dómi um álit sitt á krufningarskýrslu sem gerð var eftir að níu mánaða drengur missti meðvitund í daggæslu vorið 2001 og dó tæpum tveimur sólarhringum síðar. Eftir krufningu komu fram þrjú einkenni sem þóttu sambærileg einkennum ungbarnahristings eða shaken baby syndrome sem nú er kallað abusive head trauma.

Fékk 18 mánaða dóm
Í Hæstarétti þótti fullsannað að Sigurður Guðmundsson, þáverandi dagfaðir, hefði valdið dauða hans með harkalegum hristingi. Sigurður fékk 18 mánaða dóm fyrir manndráp af gáleysi. Hann hefur ætíð neitað sök í málinu og fyrir rúmu ári fékk lögmaður hans Dr. Waney Squier til að leggja mat sitt á málið. Hún segir krufningarskýrsluna ófullnægjandi og nokkrum atriðum ósvarað um mögulegar skýringar á andláti drengsins. „Þessar niðurstöður eru ekki afdráttarlausar og við getum ekki sagt að þær bendi til áverka, það gæti verið áverki en við getum ekki skoðað þessar vísbendingar og rakið okkur aftur á bak og ýjað að áverka og við getum ekki sagt að barnið hafi verið hrist þar sem við höfum ekki vísbendingar sem styðja við það," segir Waney Squier. 

Horfa má á ítarlega umfjöllun Kastjóss um málið hér að ofan.