„Það náðist samkomulag um útlínur á kjarasamningi. Þannig að það var áfangi í þessari löngu og ströngu kjarasamningalotu. Áfangi sem ég er mjög ánægð með þótt kjarasamningur sé ekki í höfn,“ segir Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari. Hún segir að unnið sé eftir nýrri nálgun sem sé góð að hennar mati.

„Það sem mér finnst ánægjulegt í þessu samkomulagi var að það skyldu vera öll Starfsgreinasambandsfélögin sem væru aðilar að því samkomulagi. Þetta er auðvitað allt með fyrirvara um samþykki samninganefnda og ýmislegt annað. Það voru í rauninni báðir þeir tveir hópar, það er samflot Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness, VR og fleiri félaga annars vegar og hins vegar félög Starfsgreinasambandsins. Báðir þessir hópar stóðu að þessu samkomulagi og það finnst mér mjög ánægjulegt og mikilvægt að báðir hafa sett sitt mark á þessa vinnu sem þarna liggur að baki.“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, segir að þetta sé ný nálgun í kjarasamningsgerð. Bryndís tekur undir það. „Já, ég tel það vera. Ef þetta endar í kjarasamningi, sem ég sannarlega vona, þá er þetta ný nálgun og mjög áhugaverð og að mínu mati bara mjög góð nálgun.“

Þið eigið von á fulltrúum frá ríkisstjórninni í hús? „Það á eftir að fullgera yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem er forsenda þess að af kjarasamningi geti orðið. Sú vinna heldur áfram í dag. Ég veit ekki hvort hún eigi sér stað akkúrat hér í húsi eða annars staðar. Það verða fulltrúar Alþýðusambandsins og SA annars vegar og hins vegar stjórnvalda sem fara í þá vinnu.“

Ertu bjartsýn á að ríkisstjórnin bjóði það sem þau vilja? „Ég er bjartsýn eftir daginn í gær, já. Ég tel mikilvægan áfanga hafa náðst og ég tel að það sé allavega ástæða til meiri bjartsýni en verið hefur hingað til. En að sjálfsögðu spyrjum við ekkert fyrr en að leikslokum. Það er ekki samningur í höfn fyrr en það er allt búið.“

Bryndís segist ekki geta sagt til um hvort samningur náist í dag. „Það er verið að vinna í ýmiss konar textavinnu og uppfylla þær forsendur sem samkomulagið er háð. Þær eru ekki allar komnar í hús. En ég myndi nú segja að það muni skýrast að öllum líkindum í dag hvernig þetta fer allt saman.“

Hún segir að iðnaðarmenn hafi kynnt sér efni samkomulagsins. Samningaviðræður þeirra og Samtaka atvinnulífsins haldi áfram í dag. Hún segist ekki geta sagt til um hvort þeir fari sömu leið og hinir. „En þeir hafa séð samkomulagið og vita út á hvað það gengur. Svo mun bara samtalið hefjast formlega milli þeirra og Samtaka atvinnulífsins, seinni partinn í dag, ef ég man rétt.“