Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, telur ekki víst að það verði af samruna Icelandair og WOW Air. Ýmsir fyrirvarar séu settir. „Ég er ekki viss um að þessi kaup muni verða þegar menn eru búnir að skoða ástandið á WOW,“ segir hann. Tölur sem birtar hafi verið í sumar hafi ekki litið vel út.

„Staðan þarna er örugglega mjög alvarleg, þannig að ég held að það geti alveg komið í ljós einhverjir veikleikar. Þannig að þetta er alls ekki orðið. Valið sem menn hafa er greinilega að annaðhvort fer félagið yfir um eða Icelandair kaupir það. Svo er hugsanlegt líka að kaupin gangi í gegn en svo setji Samkeppniseftirlitið skilyrði um að enginn megi sitja í stjórn WOW nema einherjir sem ekkert vita um flug eða koma nálægt Icelandair og þá eru líka forsendur brostnar,“ sagði Benedikt Jóhannesson í Silfrinu í morgun. Hann sagði að ýmsu væri enn ósvarað.

Þó samruni kunni að vera eina leiðin út úr vandanum þá sé hann ekki genginn í gegn. Þá beri að leggja áherslu á það að staða Icelandair og WOW sé gjörólík. „Bæði áttu í rekstrarerfiðleikum en Icelandair er miklu sterkara félag fjárhagslega,“ segir Benedikt. 

Þú óttast sem sagt að þegar farið verður að opna bækur WOW, sé staðan verri en menn hafa haldið? „Ég segi bara að það er ekki búið að telja upp úr kössum. Það eru settir fyrirvarar þarna og við skulum sjá hvað verður.“

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingar og fyrrverandi fjármálaráðherra, vill að eftirlitsstofnanir kanni hverjir keyptu bréf í Icelandair skömmu áður en tilkynnt var um samrunaviðræður Icelandair og WOW. 

„Mér finnst svolítið áhugaverð þessi 60 prósent hækkun á þremur dögum. Einhver hefur nú grætt á því að kaupa bréf á genginu sjö og selja á genginu 11 fjórum dögum seinna. Og ég vona bara að eftirlitsstofnanir okkar fari aðeins yfir þessi mál og skoði hverjir voru að kaupa og hverjir sátu á fundunum sem voru að sýsla með vanda flugfélaganna.“

Þú meinar að menn hafi verið að kaupa í Icelandair dagana áður en þetta var gert kunngjört? „Já, ég vil að eftirlitsstofnanir okkar fari yfir þetta. Athuga hvort það geti verið [innherjaviðskipti]. Nú má vera að það hafi ekkert verið, að það hafi verið algjör tilviljun að það hafi orðið 60 prósent hækkun sé þarna á þremur dögum. Mér finnst allavega rík ástæða til að skoða þetta.“