Víða á vinnustöðum er hægt að stytta vinnuvikuna, að mati Guðmundar D. Haraldssonar, hjá Öldu félagi um sjálfbærni og lýðræði. Hann hefur kannað þessi mál að undanförnu og rætt við fólk á ólíkum vinnustöðum um þann möguleika að stytta vinnuvikuna án þess að það komi niður á þjónustu og framleiðslu. „Þetta er hægt á mörgum stöðum, að breyta vaktaplönum til að þetta sé gerlegt, ekki á öllum stöðum en á mörgum,“ sagði Guðmundur í viðtali í Samfélaginu á Rás 1 í dag.
Stytting vinnuvikunnar er víða til umræðu um þessar mundir og hafa sum stéttarfélag lagt áherslu á hana í kjaraviðræðum sem fram undan eru. Lög um 40 stunda vinnuviku voru sett í byrjun 8. áratugarins. Guðmundur segir að samfélagið hafi breyst mikið síðan þá, til dæmis með tilkomu tækninnar. Hún hafi hins vegar ekki verið nýtt til að stytta vinnuvikuna svo nokkru nemi.
Telur brýnt að setja lög um fólk í hlutastörfum
Guðmundur hefur einnig kannað umhverfi fólks í hlutastörfum og segir að samkvæmt sinni reynslu og af samtölum sínum við aðra sé starfsöryggi lítið. Þá eigi fólk í hlutastörfum meiri hættu á því að vera sagt upp og fá sömuleiðis síður stöðuhækkun. „Í Hollandi eru lög sem voru sett fyrir 16 til 17 árum síðan og þau tryggja fólki í hlutastarfi sömu réttindi og öðrum. Þeir eiga rétt á að eiga starfsferil og líka rétt til bóta frá ríkinu en allt í hlutfalli við vinnuframlag.“ Hann segir að í Hollandi sé litið á hlutastörf sem ákveðinn lífsstíl. Fólk geti með því einfaldað líf sitt, gefið sér tíma til að elda mat, vera með fjölskyldunni, það noti samgöngur minna og hefur þannig minni skaðleg áhrif á umhverfið.
Flugliðar gátu ekki haldið áfram í hlutastörfum
Sem dæmi um stöðuna hér á landi nefnir Guðmundur flugliða í hlutastörfum sem á dögunum fengu þann kost að hætta störfum eða byrja að vinna fullt starf. Reyndar hafi flugliðar á ákveðnum aldri og með ákveðinn starfsaldur verið undanskildir. Samkvæmt úrskurði Félagsdóms var þessi krafa flugfélagsins lögmæt. „Þetta sýnir ágætlega hvað staða fólks í hlutastarfi er veik og það er eitthvað sem við gætum gert eitthvað í. Hann telur að líta mætti í meiri mæli á líðan fólks sem mælikvarða vaxtar. „Ég held að við sem heild þurfum að endurhugsa til hvers við vinnum. Við látum stundum eins og við lifum til að vinna. Vinnan er til að hjálpa okkur að lifa.“ Aukin framleiðni eigi að hjálpa fólki til að lifa mannsæmandi lífi. Hér á landi hafi fólk aftur á móti nýtt aukna framleiðni til að vera meira í vinnunni, í sumum tilfellum til að geta keypt sér fleiri hluti.
Meðal vinnuvikan 6 stundum lengri en í Danmörku
Meðalstarfsmaður hér á landi vinnur 45 tíma á viku, að undanskildum matar- og kaffitímum. Guðmundur bendir á að í Danmörku sé meðaltalið um 39 stundir. Hann telur tækifæri til breytinga. Skammtímaaðgerðir gætu verið að stytta vinnuvikuna og breyta vaktafyrirkomulagi. Langtímaaðgerðir væru að setja lög um hlutastörf og bæta aðbúnað fólks sem kýs þau.