Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir það seinna tíma mál hvort hún segi af sér formennsku vegna afhroðs flokksins í alþingiskosningum. Stjórnmálafræðingur og fyrrverandi varaþingmaður flokksins segir að Oddný ætti að segja tafarlaust af sér. Samfylkingin fékk verstu kosningaútkomu sögu sinnar en flokkurinn hlaut 5,8 prósent atkvæða og 3 þingmenn.
Í viðtölum við bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið í dag segir Oddný að hún ætli ekki að segja af sér formennsku, í það minnsta að sinni. Í Fréttablaðinu er haft eftir henni að engin krafa hafi komið fram um að stigi til hliðar daginn eftir kosningar. „Ég held að menn séu sammála um að við tökum ákvörðun um það saman. Ég geri það sem er flokknum fyrir bestu,“ er haft eftir Oddnýju í Fréttablaðinu. Í Morgunblaðinu segir Oddný að úrslit kosninga kalli á endurskoðun og umræðu um forystu flokksins. „Hvort ég held áfram sem formaður er seinni tíma mál og ákvörðun sem ég tek ekki ein,“ er haft eftir Oddnýju í Morgunblaðinu.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og um tíma þingmaður Samfylkingarinnar, var gestur Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun. Baldur sagði að Oddný ætti að segja af sér tafarlaust. Baldur sagði að Samfylkingin sé í gríðarlega erfiðri stöðu. Hann segir að staða Oddnýjar sé mjög veik. „Ég get ekki séð að hún eigi nokkra framtíð fyrir sér sem formaður flokksins, það er ekki hægt að sjá það. Því lengur sem hún situr, því erfiðara verður það fyrir flokkinn. Það er kannski skiljanlegt, og ekki skiljanlegt, að hún vilji leiða flokkinn næstu daganna eða vikurnar meðan á stjórnarmyndunarviðræður eiga sér stað. Það væri heldur ekkert óeðlilegt að varaformaður flokksins, eini kjördæmakjörni þingmaður flokksins, taki bara við,“ sagði Baldur og vísaði til Loga Más Einarssonar, oddvita flokksins í Norðausturkjördæmi.