Hernaðarumsvif á norðurslóðum aukast því miður á næstunni, að sögn Borgars Þórs Einarssonar, aðstoðarmanns utanríkisráðherra. Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði í heimsókn sinni hér á landi í fyrradag að Ísland verði ekki vanrækt lengur. Aðstoðarmaðurinn segir að ekki megi skilja þau ummæli öðruvísi en að Bandaríkjamenn ætli í auknum mæli að beina sjónum sínum að Norður Atlantshafi.
Bandaríski utanríkisráðherrann átti fundi með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, og Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, fyrir helgi. Katrín sagði honum að mikilvægt væri að auka ekki hernaðarumsvif á norðurskautinu. Hún hefur áður sagt að hún vilji að norðurslóðir verði í framtíðinni herlaust svæði.
Rætt var við Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmann Guðlaus Þórs, í Silfrinu í morgun. Þar sagði hann að með orðum sínum um vanrækta bandamenn hafi Pompeo átt við að síðan árið 2006 hafi Bandaríkin lítið hugað að ástandinu á norðurslóðum. Á sama tíma hafi stórveldin Rússland og Kína gert mun skýrari áætlanir fyrir hagsmuni sína á svæðinu.
„Þeir [Bandaríkjamenn] eru náttúrulega búnir að virkja aðra flotadeildina á nýjan leik og það er alveg augljóst að það verða hér meiri hernaðarumsvif. Það verður meiri fókus. Hernaðarumsvif Rússa og uppbygging er auðvitað mest hér, miklu meiri en uppbygging Bandaríkjamanna. Því miður þá er það þannig að hernaðarumsvif eru að aukast,“ sagði Borgar.
Þýðir það að hernaðarumsvif Bandaríkjanna hér á landi eigi eftir að aukast? „Þeir eru með kafbátaleitarvélar sem koma reglulega og loftrýmisgæsluna. Engar ákvarðanir verið teknar, hvorki af hálfu íslenskra stjórnvalda né bandarískra, um einhverja aukningu.“ Breytingar á núverandi fyrirkomulagi þyrfti að ræða á Alþingi, að mati Borgars. Það sé þó alveg ljóst að Bandaríkjamenn séu ekki að fara að opna herstöð hér á landi, heldur séu verkefni þeirra á Íslandi tímabundin.
Lögð var á það áhersla á fundi Guðlaugs Þórs með Pompeo að norðurslóðir verði áfram vettvangur þar sem þjóðir tali saman og að þar ríki ekki spenna, að sögn Borgars Þórs. Þá segir hann ljóst að heimshlutinn sé að breytast mikið enda eigi siglingaleiðin á milli Evrópu og Asíu eftir að styttast um 40 prósent. Rússar hafi mikinn viðbúnað að svæðinu og eigi eftir að ráða miklu um flutninga um leiðina. Þá hafi Kínverjar einnig lagt áherslu á svæðið sem hafi til að mynda sést á dögunum þegar fréttir bárust af því að þeir ætluðu að fjármagna flugvöll á Grænlandi.