Reykjavíkurborg hefur tapað hátt í 400 milljónum á því að kaupa, gera upp og selja húsin að Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1a. Borgarstjóri segir húsakaup í pólitískum tilgangi hafa reynst dýr. Borgarfulltrúi Framsóknar segir að bíða hefði átt lengur með söluna.

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Ólafs F. Magnússonar keypti húsin að Laugavegi fjögur og sex og Skólavörðustíg 1a fyrir rúmum sex árum. Til hafði staðið að rífa þau og byggja hótel. Kaupverðið þótti hátt - 580 milljónir. „Það lá fyrir að þau yrðu friðuð, borginni að kostnaðarlausu. Þannig að í pólitískum tilgangi, til að mynda meirihluta Sjálfstæðisflokks og Ólafs F. Magnússonar, þá var hlaupið til með tæplega sex hundruð milljóna úr borgarsjóði og húsin keypt,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.

Það var engin sérstök prýði af húsunum þegar þau voru keypt en eftir framkvæmdir þóttu þau líta betur út. Peningamálin gerðu það þó ekki. „ Það er ljóst að Reykjavíkurborg hefur tapað hundruðum milljóna króna á að kaupa, gera upp og selja þessi hús. Menn greinir hins vegar á um hvort það hefði verið hægt að minnka tapið með því að gera hlutina með öðrum hætti.“

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallavina, hefur gagnrýnt söluna. Samkvæmt upplýsingum frá borginni er heildarkostnaður borgarinnar tæpar 744 milljónir. Á móti kemur kaupverð eignarinnar, 356 milljónir, og því er heildartap borgarinnar tæpar 388 milljónir króna. Hún segir verðið sem húsin eru seld á of lágt. „Miðað við þetta kauptilboð er um 900 fm byggingarmagn sem á að koma hér bara gefins í pakkanum og það er ástæðan fyrir því að ég er á móti þessu. Allar greiningardeildir bankanna telja að fasteignaverð í miðborginni sé að hækka,“ segir Sveinbjörg.