„Höfundur nær að varpa ljósi á þá staðreynd að hver manneskja er á jörðinni í sekúndubrot í samanburði við fjöllin, jöklana og náttúruna sem umlykur okkur að,“ segir gagnrýnandi Víðsjár um ljóðabókina Hryggdýr.


Andri M. Kristjánsson skrifar:

Ljóðabókin Hryggdýr eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur er nýjasta verk höfundar sem er fyrir löngu orðin landsþekkt fyrir ljóð, skáldsögur og leikrit. Sigurbjörg hefur m.a. hlotið Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar og verið tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.

Bókinni Hryggdýr er skipt í fjóra kafla sem allir bera titil fyrsta ljóðsins í kaflanum. Kaflarnir eru byggðir upp á svipaðan hátt, þar ægir saman fjölbreyttri flóru mannlegra tilfinninga og upplifana. Og það er í raun það sem á að miðla í bókinni og það sem titill hennar vísar til. Hryggdýr bókarinnar er mannveran og umfjöllunarefnið tilvera hennar. Í gegnum ljóðabókina er lesandinn tekinn á gandreið um hlutskipti manneskjunnar í lífinu, sumstaðar er drepið niður í smáum myndum, eins og í ljóðinu „Reif í þorrann“ þar sem ljóðmælandi fylgist með fölnuðu laufblaði dansa í hvassviðri á meðan hann hugleiðir fyrrum grænan lit laufblaðsins. Á öðrum stöðum varpar ljóðmælandi ljósi á smæð manneskjunnar, eins og í ljóðinu „Skyndipróf“ en þar er ljóðmælandi staddur í prófi í líffærafræði og hugur hans reikar til jökulsins sem mun sem mun lifa okkur öll. Þannig er varpað ljósi á þá staðreynd að hver manneskja er á jörðinni í sekúndubrot í samanburði við fjöllin, jöklana og náttúruna sem umlykur okkur. Með þessu nær höfundur að vekja upp spurningar um tilgang og jafnframt tilgangsleysi þess sem mennirnir sýsla við frá degi til dags.

Við lestur bókarinnar verður ekki hjá komist að taka eftir því sem verður að kallast meginstef bókarinnar, sömuleiðis er þetta eitthvað sem flestir kynnast í gegnum lífið og allir upplifa einu sinni á ævinni, það er dauðinn. Í ljóðabókinni er það dauðinn sem er yfirvofandi, sumstaðar er það í gegnum dauða ljóðmælanda eins og í ljóðunum „Slagæðagúlpur“ og „Bláfjólur og brekkuljós“ en í þessum ljóðum tala ljóðmælendur til lesandans að handan. Á öðrum stöðum má finna fyrir dauðanum í gegnum undirliggjandi sjúkdóma eins og í upphafsljóði bókarinnar, „Urrabíta og drottningin“. Þar liggur „blautur hrammur á hægra brjósti“ (bls. 7) ljóðmælanda. Í þessu sambandi má nefna fleiri ljóð líkt og „Snjói“ þar sem þöglar flögur strást úr lifrinni yfir miltað og í „Nóvember, þegiðu“ hvinur úr barka ljóðmælanda sem hefur verið þræddur með glitstrengjum og föndurvír. Í framhaldi greinir hann frá því að fátt geti drepið hrygluhljóðin sem berast úr barkanum.

Þriðja birtingarmynd dauðans í bókinni er söknuðurinn sem fyllir manneskjuna eftir dauða einhvers nákomins. Þar ber helst að nefna ljóðið „Við gluggann, það sunnudagskvöld“ sem er ber tilvitnun í ljóð eftir Þorstein frá Hamri. Treginn sem birtist í ljóðinu og söknuðurinn er áþreifanlegur, myndmálið er einfalt og hreint sem undirstrikar einlægnina í ljóðinu en í lok ljóðsins má finna endurtekningu á síðasta orðinu. Þessi endurtekning kallast á við gamalt stílbragð sem nefnist draugalag og átti að vekja óhugnað hjá lesandanum. Hefðbundin notkun á draugalagi felur í sér endurtekningu á síðustu ljóðlínunni en í ljóði Sigurbjargar er aðeins síðasta orðið endurtekið. Þrátt fyrir þennan mun virkar stílbragðið og ljær ljóðinu dularfullan og yfirnáttúrulegan blæ.

Þrátt fyrir að dauðinn taki mikið pláss í bókinni er ekki þar með sagt að lesandinn gangi tættur og dapur frá lestrinum. Inn á milli má finna ljóð sem sýna kímni, leik og gleði, sem jafna hlutföllin, rétt eins í lífinu sjálfu sem býður bæði upp á hæðir og lægðir. Hryggdýr er ljóðabók sem tekst á við þrekvirkið að miðla ástandi manneskjunnar í öllum sínum fjölbreytileika. Þetta er verðugt verkefni sem tekst ágætlega, lesandinn er leiddur í gegnum allan tilfinningaskalann á fjölbreyttan og skemmtilegan máta.