Í gagngrunninum um þróun ráðstöfunartekna og áhrif skatta og bóta, sem opnaður var í dag, koma fram ansi ólíkar tekjur eftir þeim hópum sem valdir eru. Í hópnum sem í eru hjón eldri en 66 ára í eigin húsnæði virðist hrunið lítil áhrif hafa haft á ráðstöfunartekjurnar. Meirihluti ráðstöfunartekna einstæðrar móður um þrítugt í leiguhúsnæði kemur frá ýmis konar bótum en ekki atvinnutekjum.
Á tekjusagan.is er hægt að skoða tekjur landsmanna aftur til 1991. Þar er líka að finna upplýsingar um hvernig nota á vefinn. Grunnurinn er byggður á skattframtölum og eru gögnin fengin frá Hagstofu Íslands.
Eitt dæmi, sem Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sýndi í morgun þegar hún opnaði vefinn, er launaþróun 25 til 64 ára hjóna með 1 til 2 börn í eigin húsnæði á öllu landinu. Ráðstöfunartekjur þeirra voru 850 þúsund á mánuði árið 2017.
„Við sjáum auðvitað líka mjög áþreifanlega hvernig hrunið hafði áhrif á ráðstöfunartekjur landsmanna allra, mismunandi þó á ólíka hópa,“ segir hún.
Allt aðrar ráðstöfunartekjur eru hjá 25 til 34 ára einstæðum mæðrum með 1 til 2 börn í leiguhúsnæði. Þær voru með 287 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur árið 2017. Þar af voru aðeins 137 þúsund krónur í atvinnutekjur. Hitt voru bætur frá ríki og sveitarfélögum, barnabætur og húsnæðisbætur.
„Og þar sjáum við til að mynda minni vöxt tekna en hjá ýmsum öðrum hópum þ.a. það er auðvitað mikilvægt einmitt fyrir okkur stjórnvöld til þess að við getum beint okkar aðgerðum og stuðningi í góðan farveg, að þá skiptir máli að hafa þessi raungögn,“ segir Katrín.
Elsti aldurshópurinn fann lítið fyrir áhrifum hrunsins, það er að segja ef skoðað er línurit ráðstöfunartekna hjóna 66 ára og eldri í eigin húsnæði. Ráðstöfunartekjur þeirra voru 633 þúsund krónur 2017.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir almenna sókn á ráðstöfunartekjum hafa komið á óvart:
„Það eru allir hópar sem eru að koma með á flóðinu. Það finnst mér standa upp úr og síðan hitt að félagslegi hreyfanleikinn á Íslandi er mjög áberandi mikill. Hér erum við að fá í hendurnar grunn til þess að bæði taka betri ákvarðanir til framtíðar, læra af því hvernig okkur hefur gengið í fortíðinni og betri grunn til þess að standa á í umræðu dagsins í dag.“