Tekjuhæstu tíu prósent þjóðarinnar fengu 30% af skuldaniðurfærslu síðustu ríkisstjórnar, eða um 22 milljarða króna. Svandís Svavarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, segir það fráleitt, á meðan að fátækt fólk hafi setið eftir.
Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur ákveðið að leggja fyrir Alþingi skýrslu um niðurfærslu verðtryggðra fasteignalána, en skýrslan var unnin á starfstíma síðasta þings, þegar Bjarni Benediktsson var fjármálaráðherra. Skýrslan var unnin vegna beiðni þingmanna, en var ekki lögð fram á síðasta þingi.
Tekjuhæstu 10% fengu 30% en tekjulægstu 1,5%
Um 72 milljarðar fóru í að lækka höfuðstól verðtryggðra skulda í aðgerðinni. Samkvæmt skýrslunni fóru tæplega 30% fjárhæðarinnar til tekjuhæstu 10% þjóðarinnar, eða um 22 milljarða króna. Aftur á móti fengu tekjulægstu 10% þjóðarinnar einungis um 1,5% fjárhæðarinnar, eða um einn milljarð króna.
Tekjulægri helmingur þjóðarinnar fékk einungis 14%, en tekjuhærri helmingurinn fékk 86%, eða um 62 milljarða króna.
„Kjarninn í þessari aðgerð er samfélagslegt óréttlæti. Þarna er verið að borga úr ríkissjóði yfir 72 milljarða þar sem 86% af þeirri upphæð fer til ríkari helmings þjóðarinnar. Ríkustu 10% þjóðarinnar fá 30% af þessari upphæð, eða 22 milljarða beint úr ríkissjóði. Þetta er náttúrulega alveg fráleitt, þegar stórir hópar - aldraðir, öryrkjar, stúdentar, fátækt fólk í landinu - fékk ekkert út úr þessari aðgerð,“ sagði Svandís Svavarsdóttir á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.
Skýrslan lögð fram 19 mánuðum eftir fyrirspurn á þingi
Hún segir að starfið á Alþingi byrji ekki vel. Sérstaklega fari nýr forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, illa af stað. „Hann byrjar heldur ekki vel í samskiptum við þingið. Þar sem að annars vegar er þessi aflandsskýrsla sem að hann reynist hafa vísvitandi setið á fram yfir kosningar, og neitar núna að hitta þingnefnd, þannig að samskiptin við Alþingi eru öll með þessu sniði. Og svo er það náttúrulega skýrslan um skuldaleiðréttinguna, sem er líka stórmál, og vekur efasemdir um það að hún sé að koma þegar hún er tilbúin, maður veltir því fyrir sér hvort að hún sé að koma fram þegar það hentar pólitískum hagsmunum.“ Svandís bendir á að Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, hafi lagt fram fyrirspurn á Alþingi um dreifingu skuldaniðurfellingu eftir tekjum fyrir 19 mánuðum og ítrekað verið gengið á eftir slíkri skýrslu, bæði á þinginu og af fjölmiðlum.