Aðeins tveir dagar eru þar til lög um rafrettur taka gildi og rafrettukaupmenn eru ósáttir bæði við kostnað við að tilkynna vörur og þann aðlögunartíma sem þeim hefur verið gefinn. Í gær var óskað eftir sá tími yrði lengdur um hálft ár. Lögin kveða meðal annars á um reglur um merkingar og að bannað verði að selja börnum rafrettur. Aldurstakmarkið verður 18 ár.
Það eru ekki nema fjögur ár frá því að byrjað var að selja rafrettur hér á landi. Frá þeim tíma hafa fjölmargar veipsjoppur skotið upp kollinum. Áætla má að á Reykjavíkursvæðinu séu 12 til 13 verslanir sem sérhæfa sig í sölu rafrettna og rafrettuvökva. Engin sérlög hafa gilt um rafrettur. Lyfjastofnun leit svo á að þær væru lyf og því bæri að tilkynna til stofnunarinnar um söluna. Það er skemmst frá því að segja að engin tilkynning barst Lyfjastofnun. Því var talið tímabært að setja sérlög. Þau voru samþykkt á Alþingi í júní í fyrra. Haukur Ingi Jónsson, eigandi Gryfjunnar, sem var fyrsta veipbúðin, fagnar því að sett séu lög um þennan rekstur.
„Við erum búin að berjast fyrir því í nokkur ár að það komi löggjöf svo fólk þurfi ekki að vera veipa út í horni heldur að þetta sé orðið löggilt þannig að fólk sé ekki að veipa í opinberum byggingum, bíóum eða hvar sem er. Þetta er fyrst og fremst hjálpartæki til að hætta að reykja. Þetta á ekki að vera tískubóla, þetta er komið til að vera,“ segir Haukur Ingi.
Kaupmenn ósáttir
En rafrettukaupmenn eru ekki ánægðir. Þeir gagnrýna svokallaðan tilkynningarkostnað sem kveður á um að þeir þurfi að tilkynna hverja vöru og tæki til Neytendastofu. Tilkynningarkostnaður er 75 þúsund krónur.
„Til þess að skrá bara eina tiltekna vél þurfum við að greiða 450 þúsund krónur til Neytendastofu sem er bara algerlega óhóflegt gjald. Þetta þekkist hvergi annars staðar og þessi gjaldtaka eru ekki í Evróputilskipuninni,“ segir Haukur Ingi.
Þetta á við um rafrettu sem er samsett úr sex hlutum og kaupa þarf hvern hlut fyrir sig. Hins vegar þarf aðeins að greiða 75 þúsund fyrir rafrettu sem seld er samsett í pakka. Þá héldu menn að það þyrfti að greiða 75 þúsund fyrir hvert vökvaglas en einungis þarf að greiða fyrir hverja vörutegund sem getur innihaldið um 60 mismunandi bragðtegundir. Félag atvinnurekenda hefur kvartað til Umboðsmanns Alþingis yfir verðlagningunni. Svar hefur ekki borist frá honum.
Hóflegt gjald
Hins vegar kemur fram í svari til samtakanna frá Neytendastofu að gjaldið sé hóflega áætlað miðað við það sem tíðkast í nágrannalöndunum þar sem það sé frá 20.500 krónum, í Finnlandi, upp í 675 þúsund krónur, í Danmörku. Kaupmenn hér benda á að í Danmörku séu það framleiðendur sem greiði og þar sé markaðurinn margfalt stærri. Samkvæmt upplýsingum frá Neytendastofu höfðu 14 söluaðilar tilkynnt sig til stofnunarinnar í gær. Tilkynningar höfðu borist um 465 vörur eða vökvategundir og 12 tæki eða hluti sem tengjast sjálfum tólunum, rafrettunum.
Vilja lengri aðlögun
Þó að lögin taki gildi á föstudaginn tók ein grein gildi 1. september í fyrra, eða fyrir sex mánuðum. Hún kveður á um að tilkynna þurfi um vörur og tól og greiða fyrir þær sex mánuðum fyrir gildistöku laganna í heild. Reglugerð um tilkynningarskylduna tók hins vegar ekki gildi fyrr en í lok ágúst. Þetta gagnrýna kaupmennirnir og Neytendastofa hefur slakað talsvert á þessum fresti sem reglugerðin kveður á um. Hins vegar er ljóst að tækin eru talsvert fleiri en þau 14 sem hafa verið tilkynnt. Lögfræðingur félags atvinnurenda sendi heilbrigðisráðherra í gær erindi þar sem farið er fram á að gefið verði sex mánaða svigrúm frá 1. mars til að tilkynna vörur sem þegar eru á markaði.
Orðrétt segir:
Verði ekki fallist á framangreinda breytingu er ljóst að tjón hinna tilkynningarskyldu aðila mun nema tugum milljóna vegna förgunar og því fyrirséð að þeir munu leita réttar síns fyrir dómstólum vegna þessa og beina málinu til Eftirlitsstofnunar EFTA.
Það eru greinilega tilteknir byrjunarerfiðleikar og það er ráðuneytisins að taka ákvörðun um hvort gjaldið verður lækkað eða því breytt og líka hvort veipsalar fá lengri aðlögunartíma.
„Þeir eru að stíga sín fyrstu spor í þessum skráningum og við erum að stíga okkar fyrstu spor. Þetta hefst ekki með einhverjum áflogum og slagsmálum. Þetta eru vörur sem eru komnar til að vera næstu áratugina. Þær hafa gert sig og sannað sig. Tóbaksneysla hefur dregist gríðarlega mikið saman á Íslandi,“ segir Haukur Ingi.
Lögin taka gildir á föstudaginn
Kjarni málsins er hins vegar að lög um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur taka gildi á föstudaginn, eftir tvo daga.
Markmið laganna er:
Að veita heimildir til innflutnings, sölu, markaðssetningar og notkunar rafrettna og tryggja gæði og öryggi rafrettna og áfyllinga fyrir rafrettur á markaði og tryggja með tiltækum ráðstöfunum að börn geti ekki keypt rafrettur, segir í fyrstu grein laganna.
„ Það hafa engin lög gilt um nákvæmlega þetta hingað til. Áfyllingar með nikótíni hafa verið flokkaðar sem lyf og það fellur undir eftirlit Lyfjastofnunar. Í raun hefur þurft leyfi til að markaðssetja þær hér á landi en þetta er í fyrsta sinn sem löggjafinn tekur á þessu álitaefni um rafrettur og áfyllingarefni fyrir þær.“ segir Svava Gerður Ingimundardóttir, lögfræðingur hjá Neytendastofu.
Bannað að selja börnum
Neytendastofa auglýsti nýverið eftir starfsmanni til að sinna meðal annars eftirliti eftir að lögin taka gildi. Nú, fyrir gildistöku laganna, er ekki ljóst hve umfangsmikil starfsgreinin er í raun og veru.
„Við erum núna að fá eftirlitið með rafrettum og áfyllingum fyrir þær“ segir Svava.
Lögin taka á ýmsum atriðum eins og aldurstakamarki, auglýsingum og merkingum.
„Það verður gerð krafa um að rafrettur séu ekki seldar börnum yngri en 18 ára eða börnum. Lögin eiga að hindra aðgengi þeirra að rafrettum og áfyllingum. Síðan verður óheimilt að auglýsa rafrettur og áfyllingar og sýna neyslu þeirra. Það verður gerð krafa um sýnileikabann í verslunum að því undanskildu að sérverslunum er heimilt að hafa vörurnar sýnilegar þegar inn er komið,“ segir Svava.
Tvær reglugerðir
Ráðuneytið hefur gefið út tvær reglugerðir sem eiga sér stoð í lögunum og miðast við tilskipun Evrópusambandsins. Hún hefur reyndar ekki enn verið innleidd í EFTA-löndunum, Íslandi, Noregi og Liechtenstein, en það stendur til. Reglugerðin sem gefin var út í ágúst fjallar um tilkynningarskylduna. Hin sem var nýverið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda fjallar um merkingar á vökvaglösunum. Sú reglugerð hefur ekki verið formlega gefin út nú þegar tveir dagar eru í gildistökuna. Í lögunum sjálfum er kveðið á um að einungis sé heimilt að selja einnota vökvahylki og að áfyllingar megi ekki innihalda meira en 20 millilítra af nikótínvökva. Í reglugerðinni er kveðið nokkuð nákvæmlega á um merkingar. Sérstök varnaðarorð eiga að þekja 30% af yfirborði umbúða og þar á að standa:
„Þessi vara inniheldur nikótín sem er mjög ávanabindandi efni. Ekki er mælt með notkun þess fyrir þá sem reykja ekki.“
Hvorki á umbúðum rafrettna né áfyllinga má gefa til kynna að varan hafi þá eiginleika að geta aukið lífsþrótt eða orku eða að hún hafi lækningamátt. Þá á að fylgja umbúðum bæði rafrettna og áfyllinga bæklingur svipaður og fylgir eð lyfjum. Þar eiga að vera varnarorð, viðvaranir til tiltekinna áhættuhópa og hugsanlega skaðleg áhrif svo eitthvað sé nefnt.
„Það er í rauninni bara verið að innleiða þau skilyrði sem koma fram í tilskipuninni fá Evrópusambandinu. Það eru í raun staðlaðar kröfur sem eru gerðar þar. Þar er gerð krafa um að neytendur séu upplýstir um hvað þeir eru að kaupa,“ segir Svava.