Ófeigsfjörður á Ströndum var mikil hlunnindajörð og sagt var að hún væri sú mesta á landinu. Það var þegar stundaðar voru þar selveiðar, dúntekja og hákarlaveiðar og rekaviðurinn var nýttur í girðingastaura. Nú er jörðin komin í eyði eins og þær allar norðan Norðurfjarðar. Um sumartímann vaknar þó fjörðurinn af dvala en þá kemur Pétur Guðmundsson og fjölskylda í fjörðinn og sinnir æðarvarpinu og jörðinni.
Pétur er fæddur og uppalinn í Ófeigsfirði en fluttist þaðan eins og allir aðrir. Hann minnist æsku sinnar í Ófeigsfirði með hlýju. „Ég var bara hérna lítill og óþekkur eins og aðrir krakkar, ekkert öðruvísi.“ Þegar fjörðurinn fór í eyði 1965 voru Pétur og faðir hans einu karlmennirnir í firðinum. „Það fór allt í einu sama daginn héðan,“ segir Pétur.
„Það var bara tekin ákvörðun um það að pakka niður og fara.
Pétur segir að þá hafi verið búið að þvarga við alþingismenn hvort þeir myndu leggja veg norður. „Og Sigurður Bjarnason, ég man hann var þarna þingmaður þá, og hann sagði það er ekkert á dagskrá næstu áratugina að leggja veg í Ófeigsfjörð og þá var ákveðið að bara fara og þá voru reyndar ekki eftir aðrir karlmenn en ég og pabbi.“
Ófeigsfjörður er ævintýraheimur
Fyrir börn og ungmenni er Ófeigsfjörður ævintýraheimur. Þar er hægt að dunda sér í fjöruborðinu, skoða skeljar og reka, og leyfa sænum að leika við litlar tær.
Nú eða róa á tjörninni í túngarðinum, Óskatjörn eða leika sér þar með heimasmíðaða báta og þykjast vera fræknir sæfarar. Tjörnin getur verið heill óskaheimur út af fyrir sig, þar sem ímyndunaraflið hefur lausan tauminn og hugmyndir fá byr undir báða vængi.
Á Ströndum eru fjöllin hrikaleg og byggðin einangruð. Allar jarðir norðan Norðurfjarðar eru farnar í eyði og aðeins er haldið til í Ingólfsfirði og Ófeigsfirði á sumrin. Í Ferðastiklum fór Lára Ómarsdóttir ásamt föður sínum í þessa firði, skoðaði byggð sem var og ræddi við Pétur í Ófeigsfirði. Í lok þáttarins gengur hún upp með Hvalá og skyggnist upp á Ófeigsfjarðarheiði en þátturinn er aðgengilegur í heild sinni í spilaranum.