Talsverðar vatnsskemmdir á Háskólatorgi

02.05.2017 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd: Háskóli Íslands
Gólfefni eru ónýt og húsgögn og tölvur skemmdar í tveimur 180 manna kennslustofum í Háskóla Íslands eftir að grunnvatn flæddi inn í þær í gær. Prófum, sem þar áttu að halda í morgun, þurfti að finna annan stað.

„Þetta var bara nærri 30 sentimetra vatn í þessum sölum, og það var mjög leiðinleg aðkoma,“ segir Vilhjálmur Pálmason, deildarstjóri hjá rekstri fasteigna Háskóla Íslands. Hann segir að vatnslekinn hafi uppgötvast um sexleytið í gærkvöld í tveimur kennslustofum í kjallara Háskólatorgs. Vatnsdælur hafi bilað og grunnvatn flætt inn í húsið. Mögulega hafi fleiri þættir spilað inn í.

Vilhjálmur segir að þegar hann kom á staðinn rétt eftir klukkan sex hafi verið fyrsta verk að kalla á slökkviliðið sem hafi komið nokkrum mínútum seinna með kraftmiklar dælur og byrjað að dæla vatninu í burtu. „Þarna var ábyggilega dælt út einhverjum tugum þúsunda lítra úr þessum tveimur stofum, og síðan þegar búið var að dæla út svona því mesta, þá var farið að ryksuga teppin og síðan kom fyrirtæki sem sérhæfir sig í að losa um raka sem er í svona húsnæði og það er að störfum ennþá,“ segir Vilhjálmur.

Hann segir ekki ljóst ennþá hvað tjónið er mikið. Gólfefni séu ónýt, húsgögn skemmd og líka eitthvað af tölvum. „Þetta er það sem við vitum um núna.“

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV