Það sem boðið er upp á á hjúkrunarheimilum er ekki talið mæta þörfum ungs fólks en er það þá boðlegt fyrir aldraða spyr Berglind Indriðadóttir iðjuþjálfi. Hún er í hópi starfsfólks í öldrunarþjónustu sem vinnur að því að koma á fót Þekkingarmiðstöð um öldrunarmál. Þau vilja breyta menningunni á öldrunarheimilum og taka upp persónumiðaða þjónustu fyrir aldraða.

Þekkingarmiðstöð starfrækt á landsvísu

Rætt er við Berglindi í Mannlega þættinum á Rás eitt.  

Berglind Indriðadóttir, ásamt Rannveigu Guðnadóttur, Guðrúnu  J. Hallgrímsdóttur, Steinunni A. Ólafsdóttur og Sigrún Huld Þorgrímsdóttir, stendur að samtökum um Farsæla öldrun. Þær kynntu hugmyndina nýlega á Snjallræði, þingi um samfélagsleg nýsköpun. Allar hafa þær starfað í öldrunarþjónustunni og vinna nú að því að koma á fót Þekkingarmiðstöð um öldrunarmál. Miðstöðin verður starfrækt að landsvísu og hún er að norrænni fyrirmynd. Allir geta leitað til hennar, bæði þeir sem annast aldraða, ættingjar og aldraðir sjálfir.

Börn aldraðra eru líka aldraðir

„Það eru náttúrlega margir aldraðir sem eru í þeirri stöðu að vera sjálfir aðstandendur, annast maka sinn og svo erum vð bara orðin svo langlíf að við erum að sjá það að börn aldraðra eru líka aldraðir. Þannig að við erum með stórt aldursbil. Fólk, lögum samkvæmt, tilheyrir hópi eldra fólks eftir 67 ára aldur og við erum með fólk sem er 107 þannig að við erum að tala um 40 ára aldursbil og mjög fjölbreyttar þarfir og mörg þjónustustig.“

Vantar persónumiðaða þjónustu

Starfræktar hafa verið þekkingarmiðstöðvar í öldrunarþjónustu í nágrannalöndunum í yfir 30 ár.
Berglind segir að það sé mikil þörf á að stuðla að nýrri menningu í öldrunarþjónustu og eitt af því sé að innleiða persónumiðaða þjónustu. Það felst meðal annars í því að líta til þess hvað fólkinu þótti skemmtilegt áður en það flutti inn á hjúkrunarheimili eða aðrar öldrunarstofnanir. 

Einu sinni þurfti að sækja sérstaklega um það til heilbrigðisráðuneytisins ef stóð til að eihver yngri en 67 ára flytti á öldrunarheimili.  Berglind segir nú sé afnám aldurstakmarkana farið að trufla í hina áttin. 

Ekki boðlegt fyrir ungt fólk en hentar það þá öldruðum?

Athygli vakti fyrir nokkru þegar ungur maður var vistaður á hjúkrunarheimili og þótti það með öllu óboðlegt. 

„Mér finnst þetta mjög áhugavert frá þeim sjónarhóli, sjónarhóli þeirra öldruðu sem búa á hjúkrunarheimilum að á einhvern hátt það sem þar er í boði sé ekki talið líklegt til að mæta væntingum og þörfum ungs fólks en er það þá þjónustutilboð sem okkur þykir þá mæta þörfum aldraðra, þeirra væntingum og þörfum?  Ég er svona aðeins búin að vera fara yfir í huganum, sko eigum við einhverjar rannsóknir eða kannanir á því hvað aldrað fólk sem býr á hjúkrunarheimilum langar, hverjar væntingar þeirra eru.“

Þægilegt að aldraðir eru þögla kynslóðin 

Á ráðstefnu velferðarráðuneytisins nýlega var tala mikið um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðsfólks. Berglind segir að Íslendingar séu komnir miklu lengra í allri umræðu um mannréttindi, notendasamráð og valdeflingu ungs fólks með fötlun heldur en aldraðra.
 
„Og við erum oft að tala um kynslóðirnar, aldarmótakynslóðin og baby boomers og svo höfum við náttúrlega þöglu kynslóðina, það er elsta fólkið okkar. Og við tölum mjög sjaldan um þau og þeirra þarfir því þau eru bara þögla kynslóðin sem situr og tekur það sem að þeim er rétt. Og það er kannski bara rosalega þægilegt fyrir okkur sem samfélag að sú kynslóð hefur þá eiginleika.“
 

Fólk fyllist skelfingu við tilhugsunina

„Það er kannski svona ágætis mælikvarði á gæði þjónustunnar það er að við mátum okkur sjálf inn í boxið. Myndum við sjálf vilja vera í þessari stöðu og vera notendur þeirrar þjónustu sem verið er að veita?  [......]  Ég er ekkert viss um að ég myndi vilja vera notandi þjónustunnar og ég hef heyrt samstarfsfólk sem að er kannski nær því en ég að fara á eftirlaun að það fólk er ekki spennt fyrir því heldur og ef okkur líður svona þá hljótum við að þurfa að gera eitthvað.“
 
Berglind segir að samfélagið þurfi að feta í slóð sem búið er að feta hjá öðrum hópum sem þurfa velferðarþjónustu að stórauka umræðu um mannréttindi og sjálfstætt líf.

„Og að lífið sé þess virði að lifa því líka þegar þú ert gamall og þarft aðstoð. Það á ekki að vera þannig að fólk fyllist skelfingu við tilhugsunina. Við eigum að geta boðið þjónustu þannig að þetta sé alveg ok að vera gamall og búa á hjúkrunarheimili eða þurfa mikla þjónustu í heimhúsi.“

Ný menning innleidd

Berglind segir að hér á landi hafi sum öldrunaheimili þegar ákveðið að breyta og innleiða nýja menningu og nýta til þess hugmyndafræði persónumiðaðrar þjónustu fyrir aldraða.  
 
„Það var Lögmannshlíð var hannað frá grunni í samræmi við Eden hugmyndafræðina og eins hjúkrunraheimilið í Fjarðarbyggð var hannað með persónumiðaða hugmyndafræði í huga.“

Þess má einnig geta að Mörk hjúkrunarheimili við Suðurlandsbraut hefur fengið alþjóðlega viðurkenningu sem Eden hjúkrunarheimili.