Grunur er um að fimmtíu og tveir hafi látist vegna lyfjaeitrunar árið 2018, eða einn á viku samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu. Á árinu voru einnig rúmlega 450 útköll vegna ofneyslu. Það kom snemma í ljós á árinu í hvað stefndi. 

Fjölmiðlar fjölluðu mikið um aukna dánartíðni, auðvelt aðgengi að slíkum lyfjum og foreldrar stigu fram og sögðu frá þeirri sorg að missa börnin sín vegna ofneyslu. En hvernig var árið? Hvað segir heilbrigðiskerfið, hvað segir lögreglan og hvað segja tölur?

10 af 52 yngri en 30 ára

52 andlát eru til skoðunar hjá embætti landlæknis vegna gruns um að þau megi rekja til lyfjaeitrunar. Þetta eru 21 kona og 31 karl. Meðalaldur er 48,8 ár.
Rétt er að taka fram að þetta eru bráðabirgðatölur. Rauntölur birtast í dánarmeinaskrá síðar á þessu ári en embættið rannsakar iðulega fleiri andlátsmál en reynast vera vegna lyfjaeitrunar. Dánarmeinaskrá fyrir árið 2017 sýnir að 30 manns létu þá lífið vegna ofneyslu á lyfseðilsskyldum lyfjum.

„Árið í heild sinni hefur verið verra heldur en árinu þar á undan. Við hins vegar höfum tekið eftir því að núna síðustu mánuði hefur heldur verið að draga úr þessu aftur.“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlækni á Bráðamóttöku Landspítalans. Þegar mest lét komu meira en 10 tilfelli á bráðamóttöku á einni helgi. Nú eru þau 4-5. Í umræðunni hefur verið talað um faraldur meðal ungmenna en samkvæmt landlæknisembættinu eru einungis 10 af þessum 52 yngri en 30 ára.

Sjö prósenta aukning á milli ára

Sjúkrabílar á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðir út fjögur hundruð fimmtíu og þrisvar sinnum á árinu vegna ofneyslu. Það er um sjö prósenta aukning frá árinu 2017. Útköllin dreifast nokkuð jafnt yfir árið og eru rúmlega 37 á mánuði að meðaltali. Tveir mánuðir standa þó upp úr. Í september voru 53 útköll og í október 49.

Lyfin sem um ræðir eru ópíóíðar sem eru sterk morfínskyld verkjalyf. Helst eru þetta Oxýcódon, Fentanýl og Tramadól. 
Fram kom um helgina að ávísunum lækna á slík lyf hefur fækkað um 14% og segir landlæknir að það sé vegna aukinnar vitundarvakningar meðal lækna. 

Jón Magnús tekur undir þetta og segir ljóst að aukin fræðsla og samvinna hafi hjálpað mikið. „Ég held að það sé mikilvægt að við séum að halda áfram að vera mjög vakandi fyrir því að læknar séu ekki að skrifa út þessi sterku verkjalyf meira en bráðnauðsynlegt er. Svo ef  við höldum áfram umfjölluninni, áfram fræðslunni og höldum áfram því góða samstarfi sem er komið á milli mismunandi aðila sem hefur unnið að þessum málum.“