Takmörkuð ánægja með ríkisstjórnina

17.02.2017 - 12:31
Mynd með færslu
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru mun ánægðari með stjórnarsamstarfið en kjósendur Bjartrar framtíðar og Viðreisnar, ef marka má nýja skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis.  Mynd: RÚV
Fjórðungur landsmanna er ánægður með stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallups. Ánægjunni er hins vegar mjög misskipt eftir flokkum. Tveir af hverjum þremur þeirra sem kusu Sjálfstæðisflokkinn í haust eru ánægðir, tæp fjörutíu prósent kjósenda Viðreisnar en einungis 14 prósent þeirra sem kusu Bjarta framtíð.

Kjósendur annarra flokka eru flestir mjög óánægðir, eitt til sex prósent þeirra eru ánægðir með stjórnina. Fjórðungur alls kjósendahópsins er hvorki ánægður né óánægður. Tveir af hverjum þremur stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar er ánægður, tuttugu og átta prósent hvorki né, átta prósent þess hóps er óánægður með sitt fólk.  

Marktækur munur er eftir kynjum, hversu kjósendur eru lukkulegir með stjórnina, 30 prósent karla eru ánægð með hana, en einungis 19 prósent kvenna.  Svipað er uppi á teningnum sé tekið mið af fjölskyldutekjum.

Tekjuhæsti hópurinn er ánægðastur, rúmur þriðjungur hans er ánægður með stjórnina, en 13 - 21 prósent hinna tekjulægstu eru ánægð.  Ekki er afgerandi munur á afstöðu fólks eftir aldri. 

 

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV