Tafir vegna framkvæmda við Miklubraut

08.05.2017 - 08:06
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg  -  Reykjavík.is
Það eru nokkrar tafir á umferð um Miklubraut en framkvæmdir á götunni við Klambratún hófust í morgun. Akreinum til vesturs verður fækkað tímabundið, frá Lönguhlíð og að Rauðarárstíg og búist er við töluverðum töfum næstu morgna.

Unnið er að því að leggja forgangsrein fyrir strætó og þá verða gangstéttir og hjólaleiðir endurnýjaðar. Heildarkostnaður við framkvæmdina er um 350 milljónir króna. Búist er við töfum á umferð alveg fram í ágúst en verkinu á að vera lokið í október. Það er unnið í samstarfi við Vegagerðina og Veitur en hlutur borgarinnar er um 170 milljónir króna. 

Á vef Reykjavíkurborgar segir að verkið felist helst í því að bæta umferðaröryggi og forgang strætó. Forgangsrein strætó verður sunnan Miklubrautar og biðstöð þar verður einnig endurnýjuð. Biðstöð strætó við Klambratún fellur því út í dag og verður færð tímabundið, bráðabirgðastöð verður sett upp við gatnamót Lönguhlíðar og Miklubrautar. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV