Tæplega 700 skurðaðgerðum á Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri hefur verið frestað vegna verkfalls lækna í þessari viku. Öryggi sjúklinga er sett á oddinn en áhrifin sem verkfallið hefur á sjúklinga eru margvísleg segir framkvæmdarstjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
Verkfalli skurðlækna lýkur klukkan 16 í dag og verkfalli lækna í læknafélagi Íslands á miðnætti. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hefur um 550 skurðaðgerðum verið frestað frá því að verkfallið hófst í þessari lotu og í þessari viku stefnir í að hátt í sex hundruð komum á dag - og göngudeildir á spítalanum verði frestað vegna verkfallsins.
Tekur langan tíma að vinda ofaná áhrifum verkfallsins
Á sjúkrahúsinu á Akureyri er gert ráð fyrir að ef kjaradeilurnar leysast ekki á næstunni og allar skipulagðar verkfallslotur koma til framkvæmda hafi það áhrif á um 120 skurðaðgerðir. Í þessari lotu einni er gert ráð fyrir að fresta þurfi um 200 komum, endurkomum, símtölum og öðrum samskiptum við sjúklinga á sjúkrahúsinu. Samkvæmt upplýsingum frá bæði Landspítalanum og Sjúkrahúsinu á Akureyri verður ekki búið að vinda ofan af afleiðingum verkfallsins fyrr en á næsta ári og ljóst er að biðlistar munu lengjast. Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdarstjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, segir að starfsfólk á sjúkrahúsinu finni meira fyrir verkfallsaðgerðunum í þessari lotu en þeirri síðustu. „Fyrstu tvo dagana í vikunni þá var heilsugæslan í verkfalli og þá kom aukið álag hjá okkur því hún var að sjálfsögðu opin. Þetta var nú breyting frá fyrstu lotu.“
Öryggi sjúklinga sett á oddinn
Sigurður segir að allt kapp sé lagt á að stefna ekki öryggi sjúklinga í hættu. „En auðvitað vitum við það að eftir því sem að biðlistar eftir aðgerðum lengjast þá hefur það ýmiskonar áhrif á fólk.“ Næsta boðaða verkfall lækna er 24. og 25. nóvember á aðgerða - og flæðisviði Landsspítalans.