Rúmlega eittþúsund jarðskjálftar hafa mælst við Bárðarbungu í dag og er hrinan ekki í rénun. Verið er að flytja radar inn á hálendið til þess að mæla hugsanlegan gosmökk. Leiðni í jökulvatni mælist ekki meiri en venjulega á þessum árstíma.
Bárðarbunga og svæðið í kring er enn undir smásjá vísindamanna. Ómar Ragnarsson, sem flaug yfir svæðið undir kvöld, segir engar breytingar að sjá á yfirborði Vatnajökuls.
Vöktunarkerfi vísindamanna í svona óvissuástandi er viðamikið og öflugt. „Við erum að nota ólík gögn og greiningartæki til að fylgjast með því sem er þarna í gangi. Það er mannskapur farinn af stað með færanlegan radar, til að mæla gosmökk ef til goss kæmi,“ segir Kristín Jónsdóttir, fagstjóri jarðvár hjá Veðurstofu Íslands. Hún segir að jarðskjálftahrinan sé ekki í rénun, en yfir þúsund jarðskjálftar hafa mælst í Bárðarbungu í dag. Hún segir skjálftana hafa færst lárétt og til norðausturs í dag.
Kristín segir mikilvægt að fylgjast með hlaupvatni, en einhver fyrstu merki um hlaupvatn séu einmitt aukin leiðni í ám. Fyrsta mæligildið kæmi fram við Upptyppinga og þar hafi ekki mælst aukin leiðni.
Talið er líklegt að jökulhlaup vegna eldsumbrota í Bárðarbungu færi niður farveg Jökulsár á Fjöllum, sem rennur undan Dyngjujökli í norðanverðum Vatnajökli. Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá hvernig áin gæti flætt yfir bakka sína og breiðst út ef til þess kæmi.