Sífellt hafa verið slegin ný met í notkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu í frosthörkunum síðustu daga. Ekki er víst að allir sem vilja komist í sund á föstudaginn því svo gæti farið að skerða þurfi flutning á heitu vatni til sundlauga og annarra stórnotenda. Ef fólki tekst að draga úr notkun á heitu vatni verður líklega hægt að halda sundlaugum opnum. Pípulagningameistari sýnir hvernig má spara heita vatnið.

Höfuðborgin er falleg í vetrarbúningi en það er býsna kalt. Samfellt frost hefur verið í fimm og hálfan sólarhring og í nótt var nítján stiga frost í höfuðborginni.

Í kuldatíðinni hefur notkun á heitu vatni stóraukist.

 

„Heitavatnsnotkunin hefur verið að aukast síðustu daga og við erum alltaf að slá ný og ný met í notkun. Sextán þúsund og fimm hundruð rúmmetrar á klukkustund eru síðustu tölur sem við sáum og það er met. Í rauninni erum við að vinna eftir viðbragðsáætlun. Núna erum við hvetja alla notendur, íbúa og atvinnurekendur til að spara vatnið. Síðan þurfum við kannski að skerða til stórnotenda og það er þá að hluta til einhverjar sundlaugar. Til þess gæti komið ef notkunin dregst ekki saman,“ segir Inga Dóra Hrólfsdóttir, framkvæmdastjóri Veitna ohf.

Fólk er hvatt til að huga að ofnunum heima hjá sér. 

„Það er ýmislegt hægt að gera,“ segir Stefán Þór Pálsson, pípulagningameistari hjá Veitum ohf. Hann bendir fólki á að kanna hvort síðar gardínur séu dregnar fyrir ofna eða sófi þétt upp við þá. Með því að færa frá ofninum þannig að ylur nái að streyma um herbergið. 

Þá verði fólk að gæta þess að ofnlokinn, eða kraninn, sé ekki aflokaður með gardínu. Hæfileg stilling er þrír eða þrír og hálfur. Stefán hvetur fólk til þess að lækka í ofninum þegar það opnar glugga þannig að ofninn fari ekki á fullt.

Einnig verði fólk að gæta þess að ekki sé sírennsli í ofnum.

„Ofnar eiga sem sagt að hitna allir að ofan þegar þeir eru í fullri virkni og síðan kólna þeir niður. Á öllum ofnum fer vatnið út úr þeim að neðan og það á að fara kalt frá,“ segir Stefán.

Getum maður sagt að ef maður brennir sig á rörinu þar sem vatnið fer út af ofninum þá sé maður með allt of heitt?

„Þá erum við í alvarlegum málum. Þá ertu að kasta eiginlega allri orku sem þú færð inn. Það er mikil sóun,“ segir Stefán.

Peningar út um gluggann? „Já, peningar út um gluggann,“ segir Stefán.

Þá er fólk hvatt til þess að láta útidyr ekki standa opnar og þeir sem erum með heitan pott að sleppa því að nota hann næstu daga.

 

Stefán bendir einnig fólki á að kanna hitastig á vatni á leið úr ofnakerfinu og hvort þrýstijafnari virki sem skyldi. 

Nánari ráðleggingar um sparnað á heitu vatni má finna á vef Veitna ohf.