Leifur Muller var ungur maður þegar hann var svikinn í hendur nasista. Sá sem það gerði var Íslendingurinn Ólafur Pétursson, en Leifur hafði skýrt honum frá áformum sínum um að reyna að komast úr landi í Noregi þar sem hann var í námi.
Leifur var fyrst fluttur í Grini fangelsið í Noregi, en síðar var hann sendur til Þýskalands og dvaldi í hinum hræðilegu Sachsenhausen fangabúðum. Þar kynntist Leifur hræðilegri mannvonsku, aftökum, hungri, sjúkdómum — „helvíti nasismans,“ eins og hann kallaði það.
Strax eftir stríðið, í september 1945, kom út endurminningabók Leifs úr fangabúðum sem heitir einfaldlega Í fangabúðum nasista. Hún hefur nú verið endurútgefin. Sonur Leifs, Sveinn Muller, kom í Kiljuna og sagði frá tilurð bókarinnar, en sýndi okkur einnig minnisbók sem Leifur hélt í fangabúðunum og bók þar sem samfangar hans höfðu ritað nöfn sín og kveðjur.
Sveinn Muller segir að faðir sinn hafi í raun aldrei náð sér eftir fangabúðavistina. Hann átti erfitt með að aðlagast venjulegu lífi aftur og fólk skildi varla hvað hann var að fara þegar hann sagði frá hörmungunum sem hann hafði lent í. Í fangabúðum nasista mun vera ein fyrsta bókin sem segir frá helför nasista.
Bókin Býr Íslendingur hér?, ævisaga Leifs eftir Garðar Sverrisson, kom út 1988 og náði metsölu.
Tengt efni — Helförin með augum Hitchcocks
Nýverið var sýnd heimildarmyndin Helförin með augum Hitchcocks (Night Will Fall) á RÚV. Myndin fjallar um týnda heimildarmynd Alfred Hitchcock og Sidney Bernstein frá 1945 sem nýlega kom í leitirnar. Þeim var fengið það hlutverk að láta mynda eins mikið og hægt væri til að sýna fram á hryllinginn í útrýmingarbúðum nasista í seinni heimsstyrjöld. Myndin er aðgengileg á vef RÚV til 29. apríl.