„Þetta er ekki heimildarmynd,“ segir myndlistarmaðurinn Ólafur Sveinn Gíslason um sýningu sína Huglæg rými í Hveragerði. „Þetta er frjáls leikur og sviðsetning. Hún er allsstaðar í öllu, einhver bygging sem ég set saman og miðlar ástandi.“

Huglæg rými er innsetning sem sýnd er í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Þar notast myndlistamaðurinn Ólafur Sveinn Gíslason við myndlist, skúlptúra og kvikmyndir til þess að sviðsetja líf eins manns og rýmin í kringum hann, bæði hlutlæg og huglæg.

Sýningin samanstendur af kvikmynd sem varpað er upp á sex fleti sýningarýmisins, vatnslitaverkum, litlum skúlptúrum og milliveggjum. Uppspretta verksins eru samræður Ólafs við nágranna hans Sigurð Guðmundsson á Sviðugörðum. Hann er áhrifamikill hluti af samfélaginu og tengsl hans við mótun býlisins, húsin, skepnur og jörð eru órjúfanleg.

Viðhorf sveitamannsins heilluðu

Líf sveitamannsins Sigurðar á Sviðugörðum vakti áhuga Ólafs fyrir nokkrum árum þegar hann flutti í Flóann og setti þar upp vinnuaðstöðu. „Ég reyndar tengist þessum stað bæði svona fjölskylduböndum og svo honum, ég var í sveit hjá foreldrum hans,“ segir Ólafur. „En þegar ég fer að búa þarna fæ ég áhuga á ýmsum viðhorfum sem hann býr yfir sem ég fer að pæla í og fæ leyfi til að búa til svona verkefni og kafa dýpra.“ Ólafur fór að vinna í handriti að kvikmyndum sem Ólafur byggir á viðtölum við Sigurð en fimm leikarar, auk Sigurðar sjálfs segja frá í hlutverki hans.

„Ég myndi segja að vinnuaðferðin sé fjórskipt. Þetta eru þessar kvikmyndir, svo er ég með þessar byggingar, vatnslitamyndir - sem eru mjög mikilvægar og unnið í alveg síðan ég var unglingur. Það er eitthvað sem ég geri markvisst sem kjarni í minni vinnu. Svo eru það þessi arkítektúr, byggingar sem eru saumuð textílrými. Þar er ákveðin skipting í áferð og litum sem eru heima hjá honum líka og kannski hlutföll líka. Þetta skalar safnið milli safnsins og hans rýma, brúa þetta bil.“

Ólafur hefur unnið að sýningarverkefninu Huglæg rými í nokkur ár og rétt eins og fyrri verk hans er það innblásið af samfélaginu. Verkið var fyrst kynnt á OPNUN sem var sýning í Gallerý Kling & Bang þegar Marshall húsið var formlega opnað árið 2017.