Sverrir Hermannsson, fyrrverandi ráðherra og bankastjóri, lést á hjúkrunarheimilinu Mörk aðfaranótt mánudags, 88 ára að aldri. Sverrir kom víða við á litríkum ferli og í meðfylgjandi myndskeiði er stiklað á stóru í sögu þessa áhrifamikla stjórnmálamanns og bankastjóra.

Sverrir fæddist á Svalbarði í Ögurvík 26. febrúar árið 1930. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1951 og viðskiptafræðiprófi frá Háskóla Íslands 1955. Sverrir hóf ungur afskipti af stjórnmálum og var þingmaður Austurlands frá 1971 til 1988 og sat þá fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.

Sverrir var iðnaðarráðherra frá 1983 til 1985 og menntamálaráðherra frá 1985 til 1987. Þá var hann forseti neðri deildar Alþingis frá 1979 til 1983.

Árið 1988 tók Sverrir við sem bankastjóri Landsbanka Íslands og gegndi hann því starfi í tíu ári, til ársins 1998. Það sama ár stofnaði Sverrir Frjálslynda flokkinn sem barðist meðal annars fyrir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Sverrir náði kjöri á Alþingi og sat sem þingmaður Reykvíkinga eitt kjörtímabil, frá 1999 til 2003.

Sverrir var kvæntur Gretu Lind Kristjánsdóttur; hún lést árið 2009. Þau eignuðust fimm börn og áttu eina fósturdóttur.