Neyðarástand ríkir á leigumarkaði, að sögn Margrétar Kristínar Blöndal, nýkjörins formanns Leigjendasamtakanna. Hún var gestur í Silfrinu í morgun og kallaði þar eftir því að sveitarfélög grípi til aðgerða til aðstoðar þeim sem hafa varla efni á húsnæði. Margrét hefur sjálf verið á leigumarkaði meira og minna frá sautján ára aldri. Hún telur ástandið á leigumarkaði hafa versnað undanfarin ár.

„Ég myndi kalla borgina og sveitarfélögin til ábyrgðar, því þau verða að bregðast við þessu ástandi. Kjör fólks eru með þeim hætti að það hefur ekki efni á að leigja húsnæði, það er bara þannig. Ef þú færð 317 þúsund útborgað og borgar 200 þúsund í leigu og ert með nokkur börn á framfæri þá sérðu hver útkoman er. Þá ertu ekki farinn að telja síma eða borða.“

Margrét segir að þótt mikið sé byggt haldist leiguverð áfram hátt. „Fólk berst í bökkum. Það þekkja það 50 þúsund manns hvernig það er að vera í stöðugum afkomuótta. Hvað það er að fresta alltaf ferðinni til tannlæknis, það þekkja það margir.“

Margrét telur að vekja þurfi fólk til vitundar um að staða þess sé ekki óbreytanleg. „Það er ekki þannig, auðvitað er þetta ekki óbreytanlegt. Við þurfum auðvitað að standa saman og rísa upp.“