Svarti pardusinn á hvíta tjaldið

11.04.2017 - 16:30
Svarti pardusinn, sem á ensku kallast Black panther, er fyrsta svarta ofurhetjan sem nýtur almennrar hylli. Stórmynd um pardusinn er væntanleg á hvíta tjaldinu í febrúar á næsta ári.

Svarti pardusinn heitir réttu nafni T’Challa og er konungur í goðsagnakenndu afrísku konungsríki sem kallast Wakanda. Í gervi svarta pardussins býr hann yfir mikilli snerpu, styrk og nætursjón. Að auki, er T‘Challa eldklár og býr m.a. yfir heilunarmætti. Líkt og pardusinn í dýraríkinu, þ.e.a.s. svarti hlébarðinn, þá er ofurhetjan fær um að skjóta stuttum kattarklóm fram úr hnúunum þegar hætta steðjar að.

Mynd með færslu
 Mynd: ign.com
Black panther

Ta-Nehisi Coates, höfundur nýrra myndasagna um Svarta pardusinn er ekki hinn dæmigerði höfundur ofurhetjusagna.  Hann er 41 árs blaðamaður og rithöfundur sem stökk fram á sjónarsviðið fyrir tveimur árum þegar hann hlaut bandarísku bókmenntaverðlaunin í flokki óskáldaðs efnis sem og afreksstyrk hins virta MacArthur-sjóðs fyrir sjálfsævisögulega bók sína „Between The World And Me“ eða „Á milli heimsins og mín“. Bókin er skrifuð sem bréf til unglingssonar Coates, ekki ósvipað frægu bréfi James Baldwin til frænda síns sem má finna í frægu ritgerðasafni Baldwins frá 1963, The Fire Next Time.

Í verkinu ,,Á milli heimsins og mín’’ gerir Coats syni sínum grein fyrir tilfinningum, symbólisma og raunveruleika tengdum því að fæðast svartur í bandarísku samfélagi. Hann tekur saman sögu þjóðarinnar og blandar inn í hana eigin æskuminningum og ungdómsárum í Baltimore-borg. Hann leitast við að útskýra kynþáttahatur fyrir syni sínum og sýna honum hve samofið það sé bandarískri menningu. Ólíkt Baldwin, sér Coates yfirburði hvíta mannsins sem varanlegt órjúfandi afl, afl sem svarti maðurinn mun hvorki ná að leiða hjá sér né eyða algerlega. Afl sem hinn svarti mun ávallt berjast gegn.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia  -  Wikipedia
Ta-Nehisi Coates

Í uppvextinum las Ta-Nehisi Coates myndasögurnar um X-Men gengið. „Það var kraftur í þeim, þeir unnu bug á óréttlæti og mismunun, þeir voru utangarðs og ég tengdi við það,“ segir Coates í nýlegu viðtali við tímaritið TIME. Hann segir einnig að það hafi ávallt verið einhver heimspekilegur þráður í þeim teiknimyndasögum sem hann las sem barn. „Svarti pardusinn er ekki aðeins saga um konung sem reynir að halda völdum. Ég er líka að reyna að svara öllum hinum spurningunum. Stóru félagslegu og heimspekilegu spurningunum,“ segir hann. 

Coates ætlar að skrifa 11 sögur um Svarta pardusinn en hann ætlar ekki að láta staðar numið þar heldur hyggst hann endurvekja seríu eftir Christopher Priest, fyrsta svarta ritstjóra Marvel-myndasagna. Serían kallast „Svarti pardusinn og gengið“ eða „Black Panther and the Crew“ og Coates semur sögurnar í samstarfi við ljóðskáldið Yonu Harvey. Þær snúast um samstarf fimm svartra ofurhetja í Harlem í New York; Svarti pardusinn, Storm úr X-Men, Luke Cage úr The Defenders, Misty Knight og Manifoldvernda Harlem-búa á tímum mikillar ólgu í framhaldi af mótmælum  Black Lives Matter hreyfingarinnar. Fyrsta tölublaðið hefst á rannsókn lögreglukonunnar Misty Knight á dauða aðgerðasinna sem lést í haldi lögreglunnar.

Lestin gerði sér ferð upp í Mekka teiknimyndasagnanna á Íslandi, Nexus, og kynnti sér Svarta pardusinn nánar með Þórhalli Björgvinssyni sem sér um myndasögurnar í búðinni. 

Mynd með færslu
Anna Gyða Sigurgísladóttir
dagskrárgerðarmaður
Lestin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi