Ómögulegt er að fljúga að gosstöðvunum þar sem biksvart öskuský birgir alla sýn. Skýið færist sífellt vestar og náði að Selfossi síðdegis. Á sama tíma var heiðskírt á hálendinu.
Fréttastofa flaug að gosstöðvunum eftir hádegi í dag. Lagt var af stað klukkan hálfþrjú frá Selfossi og þá mátti sjá grábrúna slikju liggja yfir öllu Suðurlandi, vestur fyrir Þjórsá. Eftir því sem austar dró varð skýið dekkra og þykkara. Við Búrfell sást ekki til jarðar.
Á sama tíma var heiðskírt yfir Kerlingafjöllum og Hofsjökli í norðri.
Yfir Grímsvötnum var niðamyrkur. Öskuskýið var svo þykkt að ómögulegt var að fljúga að gosstöðvunum. Um þrjátíu kílómetra frá Grímsvötnum þurftum við frá að hverfa sökum öskunnar. Skyggni yfir Vatnajökli var ekkert.