„Mesta framlagið sem maður getur lagt til loftslagsmála er að hætta að borða kjöt,“ segir Jóhann Þórsson líffræðingur hjá Landgræðslu Íslands.

„Þegar þáverandi formaður loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna kom til Íslands og var spurður að því, hvað er mikilvægasta aðgerðin sem við getum sem mannkyn gert til þess að forða loftslagsbreytingum. Svarið var einfalt: Hætta að borða nautakjöt,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson fyrrverandi forseti. „Ég hef þess vegna hugað að fæði mínu þannig að það er orðið loftslagsvænna en það var áður.“

Í fimmta þætti af Hvað höfum við gert? sem er á dagskrá RÚV á sunnudagskvöld er meðal annars fjallað um hvað Íslendingar geta gert til að stemma stigu við loftslagsbreytingum. Ísland ætti að vera í góðri stöðu því hér getum við framleitt raforku og hitað hús með endurnýjanlegum orkugjöfum –samt sem áður er losun koldíoxíðs á mann á Íslandi með því hæsta sem gerist í heiminum. Hægt er að horfa á eldri þætti í spilara RÚV