Ljóðrænar lýsingar Guðbergs Bergssonar og leikur hans með orð eru skemmtilega útfærð í kvikmyndinni Svaninum að mati gagnrýnenda. Myndin er fyrsta kvikmynd Ásu Helgu Hjörleifsdóttur í fullri lengd.

Snæbjörn Brynjarsson segir einn helsti styrkleika Svansins vera takmarkað sjónarhorn áhorfandans. „Eitt það skemmtilegasta við myndina er að sögumaðurinn er ung stúlka og við upplifum drama gegnum hana, frá hennar augum og erum ekki með allar upplýsingarnar sem við þurfum til að skilja hvað er nákvæmlega í gangi. Það er mjög skemmtilegur máti til að segja frá sambandi vinnumanns og dótturinnar á bóndabýlinu og öllu ástardramanu sem er í gangi og maður botnar ekki alveg í.“

Bryndís Loftsdóttir segir myndina sjálfstæða í túlkun sinni á verki Guðbergs. „Þetta er glæsilegt byrjendaverk fyrir Ásu Helgu. Hún fær töluvert mikið frelsi frá bókinni, það eru nokkur atriði sem eru töluvert mikið frábrugðin því sem við sem höfum lesið bókina könnumst við. Þeim mun skemmtilegra að hafa lesið bókina því hún byggir svo mikið á lýsingu, hugsunum og lykt sem kannski erfitt er að sýna í kvikmynd og það er virkilega gaman að sjá hvernig hún leysir það.“

Með helstu hlutverk í myndinni fer hin 13 ára gamla Gríma Valsdóttir, Þuríður Blær Jóhannsdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Ingvar E. Sigurðsson og Katla Margrét Þorgeirsdóttir.

„Ég hreifst verulega með, maður þarf svolítið að láta sig hrífast – þetta er ekki spennu- eða gamanmynd þó vissulega séu fyndnir punktar,“ segir Bryndís. „Ég datt alveg inn í þessa mynd. Þetta er níu ára stelpa sem kemur þarna á sveitaheimili alein, hún er send út í sveit eftir að hafa hnuplað og þar er allt framandi; lyktin, fólkið og það er enginn neitt sérstaklega að útskýra fyrir henni, þetta er dálítið eins og sveitin var í gamla daga.“

Einstaklega sannfærandi

Að mati Bryndísar er frammistaða aðalleikonunnar góð. „Gríma Valsdóttir er alveg frábær í þessari mynd og jafnframt leikstjórnin á henni og fleirum. Það má til dæmis nefna að Hilmir Snær er alveg kostulegur í hlutverki leikarans, það er mjög fyndið þegar hann leikur leikara á hestamannamóti.“ Snæbjörn metur frammistöðu annarra leikara í myndinni. „Mér fannst Þuríður Blær og Þorvaldur Davíð alveg einstaklega sannfærandi í sínum hlutverkum.“

Hann nefnir að þema, umhverfi og titill myndarinnar séu kunnugleg. „Það sem háir þessari mynd er að þó þetta sé mjög vel heppnuð svona „arthouse“-mynd þá er þetta svona enn ein íslenska myndin um óhamingjusamt fólk úti á landi. Svo hefur maður heyrt mörg dýranöfn; það eru þrestirnir og hrútarnir og hrossin í oss og allt þetta. En á heildina litið mjög vel heppnuð mynd.“