Unnendur Víkurgarðs í Reykjavík efndu til mótmæla gegn uppbyggingaráformum og hvöttu menntamálaráðherra til þess að friðlýsa stærra svæði en nú er. Fundarstjóri baráttufundarins segir garðinn gegna mikilvægu hlutverki sem menningararfleifð. „Sumum finnst það skrítið og eru að hlæja að því að þetta séu bara eldri borgarar en mín skoðun er sú að það sé einmitt þetta eldra fólk sem skilji þetta mikilvægi,“ segir fundarstjóri baráttufundarins.
Aðdáendur Víkurgarðs boðuðu til baráttuskemmtunar í Iðnó með ræðum, leikþætti og söng. Svo var gengið í Víkurgarð þar sem ályktun fundarins var fest á vegginn sem umkringir framkvæmdasvæðið.
Minjastofnun ákvað í ársbyrjun að skyndifriða þann hluta Víkurgarðs sem er innan Landsímareitsins og þannig stækka svæðið sem nú er friðað. Mennta- og menningarmálaráðherra þarf svo að ákveða hvort hún fellst á þá ákvörðun eða hafnar skyndifriðlýsingu. Ráðherra verður að taka ákvörðun eigi síðar en á mánudag. Í ályktun fundarins í dag er skorað á menntamálaráðherra að friðlýsa stærra svæði Víkurgarðs en nú er.
„Og fundurinn ítrekar nauðsyn þess að hann sé friðlýstur alveg að mörkum hans frá 1838. Og þetta er ákall til borgarinnar um að virða þetta, virða þessa arfleifð okkar Íslendinga,“ segir Kristrún Heimisdóttir, fundarstjóri baráttufundar.
Borgarlögmaður hefur lagst gegn því að friðlýst svæði verði stækkað og bent á að allar menningarminjar sem voru á svæðinu hafi verið fjarlægðar.
„Samfélag og fólk sem missir tengsl við rætur sínar, það missir mjög mikið. Sumum finnst það skrítið og eru að hlæja að því að þetta séu bara eldri borgarar en mín skoðun er sú að það sé einmitt þetta eldra fólk sem skilji þetta mikilvægi,“ segir Kristrún.
En þetta er ekki bara einhvers konar þjóðernishyggja?
„Alls ekki. Þetta skilningurinn á því umhverfi sem við lifum í,“ segir Kristrún.