Kvikmyndarýnir Lestarinnar segir verkið Litlu Moskvu eftir Grím Hákonarson vera merka heimild um liðna tíð, og sé enn lifandi saga í minni íbúa Neskaupstaðar.


Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:

Ný heimildarmynd eftir Grím Hákonarsonar, Litla Moskva, fjallar um Nesskaupstað og ítök Alþýðubandalagsins og sósíalista þar í 52 ár. Þetta er heimildarmynd sem horfir aftur til daga þegar heimurinn virtst vera svarthvítur – annað hvort varstu með kommunum eða kaupfélaginu eins og einn viðmælandinn segir. Tvær andstæðar fylkingar, hægri eða vinstri, svo var bara að velja hlið og halda sig þar, einfalt líf ekki satt? Leikstjórinn Grímur segist sjálfur hafa verið heillaður af þessu rauða þorpi sem skar sig úr í kosningasjónvarpinu þar sem blái liturinn var ríkjandi um land allt. Gerð Litlu Moskvu hófst fyrir um fimm árum og það er óhætt að segja að myndin komi út á góðum tíma en sósíalísk hugmyndafræði er aftur komin upp á pallborðið í stjórnmálalandslagi nútímans eftir áratugi af ríkjandi hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar.

Ég minntist á það fyrr í haust í umfjöllun minni um heimildamyndina Bráðum verður bylting, sem fjallar um sendiráðstöku íslenskra námsmanna í Stokkhólmi árið 1970, að þessar tvær myndir, Litla Moskva og Bráðum verður bylting, væru til marks um endurnýjun áhuga á sósíalískri hugmyndafræði og byltingaranda fortíðar. Myndir um liðna tíð sem tala inn í samtímann. Bráðum verður bylting minnist einnig á þann atburð þegar bændur í Suður-Þingeyjarsýslu tóku sig til og sprengdu stíflu í Laxá við Mývatn en Grímur hefur einmitt gert þessum atburði skil í heimildarmyndinni Hvellur frá árinu 2013.

Þrátt fyrir að andi nostalgíunnar svífi yfir Litlu Moskvu, eða ostalgíunnar eins og blæti eða nostalgía gagnvart sovétríkjunum eða gamla Austur-Þýskalandi hefur verið kölluð, þá er þetta síður en svo einföld saga með andstæðum stríðandi fylkingum sem sér fortíðina í rósrauðu ljósi. Það var margt jákvætt og gott sem fylgdi gamla sósíalismanum sem margir viðmælendur myndarinnar rifja upp með blik í augunum, þá sérstaklega manneskjulega framkomu gagnvart verkafólki síldarvinnslunnar. Hins vegar dagaði hin sósíalíska hugmyndafræði uppi í Kárahnjúkastíflunni umdeildu en valdatíð sósíalistanna á Neskaupstað leið undir lok í kjölfar hinna miklu deilna sem bygging Kárahnjúkastíflu var og er. Eins og Grímur leikstjóri bendir á í viðtali við Fréttablaðið þá voru kommarnir á Neskaupstað iðnaðarkommar og mikilvægi atvinnusköpunar því sett framar öllu öðru í hinu litla bæjarfélagi. Sumir byltingarsinnar byggja því stíflur á meðan aðrir sprengja þær.

Litla Moskva er einstaklega vel gerð mynd að því hún leitast raunverulega við að fanga söguna sem er falin í daglegu lífi þeirra sem lifa hana, myndin er ekki sett upp sem hefðbundin heimildar- og fræðslumynd líkt og Bráðum verður bylting þar sem rætt er meðal annars við sagnfræðinga. Heldur fær áhorfandinn að kynnast ólíkum persónum og ólíkum sjónarmiðum fólksins sem býr á staðnum. Litla Moskva er borin uppi af viðtölum við íbúa Neskaupstaðar, bæði eldri og yngri íbúa, og við sjáum hvernig ein hugmyndafræðin hefur tekið við af annarri í viðskiptum og pólitík og dæmi hver fyrir sig hvort sé betra eða verra. Heimurinn er nefnilega ekki svarthvítur. Saga Stellu Steinþórsdóttur sem kemur fram í myndinni er til marks um það en hún er verkakona sem lýsir sér sem helblárri og þurfti að berjast á móti straumnum í kommasamfélaginu sem dygg stuðningskona Sjálfstæðisflokksins.

Hvort hennar hlutskipti sem verkakonu sé betra eða verra eftir að sósíalisminn leið undir lok í Neskaupstað skal látið liggja á milli hluta hér líkt og í myndinni, það er margrætt. Mannlegt líf er margrætt og óendanlega núansað, það eru til margar útgáfur af sömu sögunni og það er mikilvægt að fá innsýn inn í sem flestar hliðar samfélagsins og að fólk hlusti á hvert annað og læri af stóru mistökum mannkynsögunnar. Sjálfur bærinn er líka áhugaverð persóna í Litlu Moskvu, breytingar á arkitektúr og notagildi bygginga eru mikilvægur hluti af sögunni sem og fjöllin, hafið og náttúran. Fyrst var það síldin, svo stóriðjan og undir lokin eru það ferðamennirnir sem eiga að koma atvinnusköpuninni til bjargar.

Útvörður kommúnismans og hugmyndafræðilegur vígvöllur

Bæði myndatakan og tónlist Valgeirs Sigurðssonar skapa myndinni fallega og vandaða umgjörð eins og viðfangsefnið á skilið. En það er saga Stellu og hún sem persóna sem sat eftir í mér löngu eftir að ég sá myndina. Góðar heimildarmyndir opna dyr inn í heima sem áður voru áhorfandanum huldir og góðar heimildarmyndir geta víkkað út þekkingu áhorfandans á fólki og málefnum sem þeir þekktu jafnvel fyrir. Góða heimildarmyndir eru líka þær sem eru áhugaverðar karakterstúdíur. Heimildarmyndir, eins og orðið gefur til kynna, eiga jú að vera heimildir. Það er ekki til neitt sem heitir fullkomið hlutleysi eða einhver ein útgáfa af sannleikanum eða sögunni sem er réttari en annar, allt er huglægt. Nokkuð sem er mikilvægt að hafa í huga á tímum síðsannleikans og samfélagsmiðlanna sem stýra að mörgu leyti því hvaða viðhorf og upplýsingar ná til okkar.

Litla Moskva er heimild um liðna tíð sem enn er lifandi saga í minni íbúa Neskaupstaðar, pínulítið bæjarfélag á Íslandi sem Grímur Hákonarson leikstjóri fékk leyfi til þess að gægjast inn í. Neskaupstaður, eða Litla Moskva eins og bærinn var uppnefndur, var bæði skemmtilegur og skrýtinn útvörður kommúnismans á 20. öldinni en líka áhugaverður vígvöllur hugmyndafræðilegra átaka en á sama tíma dæmigert íslenskt sjávarpláss berskjaldað gagnvart duttlungum mannanna og óvægnum náttúruöflum.