Mynd með færslu
Það er nokkuð suðrænt yfirbragð yfir tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld, en nú fer að hylla undir lok starfsársins að þessu sinni. Einleikari á tónleikunum er hollenski fiðluleikarinn Simone Lamsma og hljómsveitarstjóri Yan Pascal Tortelier. Tónleikarnir verða í beinni útsendingu á Rás 1 kl. 19:30 en upphitun hefst hálftíma fyrr.

Hugurinn suður á bóginn

Það er komið vor, ef ekki bara sumar, og því við hæfi að efnisskrá kvöldsins taki nokkuð mið af ferðalögum og ferðaþránni. Tónlistin er á suðrænum nótum og innblásin af löndum í suðurhluta Evrópu.

Það eru sex verk á efnisská kvöldsins:

Ambroise Thomas: Mignon, forleikur 
Claude Debussy: Petite suite 
Ernest Chausson: Poème (Simone Lamsma einleikur)
Maurice Ravel: Alborada del gracioso  
Pablo de Sarasate: Carmen-fantasía  (Simone Lamsma einleikur)
Pjotr Tsjajkovskíj: Capriccio italien 

Í þættinum Á leið í tónleikasal sem heyra má hér í spilaranum fyrir ofan er meðal annars fjallað um menningarfyrirbærið Grand Tour og rætt við einleikara kvöldsins, Simone Lamsma. Umsjónarmaður og kynnir á tónleikunum er Guðni Tómasson. 

Nánari upplýsingar um efnisskrána má finna á vef Sinfóníuhljómsveitarinnar.