Stefnt er að því að frumvarp um stofnun þjóðarsjóðs verði lagt fram á Alþingi í haust. Arðgreiðslur orkufyrirtækja munu renna í sjóðinn. Stærð hans gæti orðið á bilinu 250 til 300 milljarðar innan 20 ára. Í tímabundnu bráðabirgðaákvæði er gert ráð fyrir að hluti arðgreiðslnanna renni til uppbyggingar hjúkrunarrýma og eflingar nýsköpunar í atvinnulífinu.

Hefur verið lengi á dagskrá

Nokkuð lengi hefur verið rætt um að stofna einhvers konar þjóðarsjóð sem fjármagnaður yrði með arði af auðlindunum. Auðlindanefnd lagði til um aldamótin að ef gjöld yrðu tekin af auðlindum í þjóðareign yrði stofnaður  sjóður því gjöldin gætu gefið umtalsverðar tekjur. Mynda ætti sjóð sem almenningur ætti aðild að og varið yrði til að efla þjóðhagslegan sparnað og uppbyggingu. Fleiri hafa viðrað hugmyndir um stofnun sjóðs vegna arðs af auðlindum. Þjóðarsjóður hefur hins vegar verið á dagskrá síðustu tveggja eða þriggja ríkisstjórna og nú virðast horfur á að sjóðurinn verði að veruleika. Hann hefur gengið undir ýmsum nöfnum, stöðugleikasjóður, fullveldissjóður og orkuauðlindasjóður svo eitthvað sé nefnt. Í stjórnarsáttmála síðustu ríkisstjórnar var gert ráð fyrir að stofnaður yrði stöðugleikasjóður. Hann átti að tryggja komandi kynslóðum hlutdeild í ávinningi af sameiginlegum auðlindum og  vera sveiflujafnandi fyrir efnahagslífið.  2015 sagði Bjarni Benediktsson, þá fjármálaráðherra, að slíkur sjóður yrði einskonar varasjóður fyrir Íslendinga og að hann ætti jafnframt að vera stöðugleikasjóður til að jafna út efnahagssveiflur í hagkerfinu. Hann yrði notaður til að greiða niður skuldir og til að styðja  við fjármögnun mikilvægra innviða. Hann talaði líka um framkvæmdir eða uppbyggingu í menntakerfinu.  Hugmyndin væri að byggja upp myndarlega höfuðstól og styrkja þannig efnahagslega stöðu landsins.

Í verkefni sem þessu næst einungis árangur ef hugsað er til langs tíma. En sé það gert getur sjóðurinn verðið mikilvægt hagstjórnartæki. Tryggt væri að við legðum til hliðar í uppsveiflu og sjóðurinn væri til staðar til að blása lífi í hagkerfið í niðursveiflu. 

Sagði Bjarni Benediktsson á ársfundi Landsvirkjunar 2015. Nú virðist  vera komin nokkuð ljós hugmynd um hlutverk Þjóðarsjóðsins sem kynnt var í samráðsgáttinni í síðasta mánuði. Þar var líka gefinn kostur á að skila inn umsögnum.  Þar er gerð grein fyrir hlutverki sjóðsins:

 Sjóðnum verði ætlað að gegna því megin hlutverki að verða eins konar áfallavörn fyrir þjóðina þegar ríkissjóður verður fyrir fjárhagslegri ágjöf í tengslum við meiri háttar ófyrirséð áföll á þjóðarhag, annað hvort vegna afkomubrests eða vegna kostnaðar við viðbragðsráðstafanir sem stjórnvöld hafa talið óhjákvæmilegt að grípa til. Hér er átt við skakkaföll sem eru fátíð en sagan sýnir að geta riðið yfir á nokkurra áratuga fresti, t.d. stórfelldar náttúruhamfarir sem gætu m.a. stórlaskað byggð, samgönguinnviði eða vatnsaflsvirkjanir og stóriðjuver, vistkerfisbreytingar,  sjúkdómar eða önnur áföll, og valda stórfelldu efnahagslegu tjóni umfram þann skaða sem tryggður er með öðrum hætti s.s. með Náttúruhamfaratryggingum Íslands.  Sem dæmi um slíka stóratburði sem orðið hafa má nefna náttúruhamfarir á borð við Skaftárelda og Móðuharðindin (1783-85) eða Heimaeyjargosið (1973), vistkerfisbrest eins og hrun síldarstofnsins (1969) eða sjúkdómsfarald á borð við spænsku veikina (1918). Einnig gæti verið um að ræða atburði eða kringumstæður af allt öðrum toga, svo sem afleiðingar af stórfelldum netárásum á mikilvæga innviði landsins eða hryðjuverk.


  Segir í greinargerð fjármálaráðuneytisins um hlutverk fyrirhugaðs Þjóðarsjóðs.  Nú er hlutverki ekki að viðhalda stöðugleika eins og rætt var um áður. Niðurstaðan er að ekki er talið tilefni til að komið verði upp sérstökum stöðugleika- eða sveiflujöfnunarsjóði.  Í núverandi stjórnarsáttmála er gert ráð fyrir að afmarkaður hluti sjóðsins verði nýttur til að styðja við sprotafyrirtæki og   til átaks í uppbyggingu hjúkrunarrýma fyrir elstu kynslóðina. Enn er gert ráð fyrir þessu en þó þannig að í bráðabirgðaákvæði  verði gert ráð fyrir að hluti af arðgreiðslunum  fari í nýsköpun og fjölgun hjúkrunarrýma tímabundið.

Gæti fljótt orðið stór sjóður

Ekki er ljóst hve háar arðgreiðslur verða sem einkum koma frá Landsvirkjun. Hins vegar er áætlað að endanleg stærð sjóðsins eða framtíðarstærð verði 250 til 300 milljarðar og það náist á 15 til 20 árum.

Átta umsagnir bárust vegna áforma stjórnvalda um stofnun Þjóðarsjóðs þá sjö daga sem gafst möguleiki til þess. Samband Íslenskra sveitarfélaga gagnrýnir þennan stutta tíma. Það leggst ekki gegn sjóðnum en vill víka hlutverk hans svo sem að kostnaður vegna innleiðingar ESB löggjafar verði greiddur úr sjóðnum svo sem kostnaður vegna fráveitu, úrgangsmála og almenningssamgangna.

Samtök atvinnulífsins leggjast gegn stofnun sjóðsins. Nær sé að greiða niður lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs sem námu í fyrra 620 milljörðum eða um fjórðung af landsframleiðslunni. Og einnig að greiða niður skuldir ríkisins.  Ef það yrði gert væri hægt að lækka skatta og efla til framtíðar hagsæld allra Íslendinga.