„Styrkleikamerki fyrir fjármálakerfið“

20.03.2017 - 09:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir styrkleikamerki fyrir íslenskt fjármálakerfi að útlendingar vilji fjárfesta í því. Hann vonast til þess að í framhaldi af kaupum erlendra fjárfestingarsjóða og fjárfestingarbankans Goldman Sachs á hlut í Arion banka verði hægt að skapa grundvöll fyrir dreifða eignaraðild að íslenskum fjármálafyrirtækjum.

Arion banki og Kaupþing tilkynntu í gærkvöldi að Kaupþing hefði selt tæplega 30% hlut í Arion banka á 48,8 milljarða króna. Samkvæmt tilkynningunni eru kaupendurnir fjárfestingarsjóðirnir Attestor Capital með 9,99% hlut, Taconic Capital Advisors UK með 9,99% hlut, félag tengt bandaríska fjárfestingarsjóðnum Och-Ziff Capital Management Group með 6,6% hlut og bandaríski fjárfestingarbankinn Goldman Sachs með 2,6% hlut. Eftir kaupin á Kaupþing 57,9% í Arion banka, ríkissjóður 13%, og nýju fjárfestarnir samtals 29,2%. Fjárfestarnir hafa einnig kauprétt að 21,9% hlut til viðbótar.

Bjarni segir að beðið hafi verið frétta af því hvernig þeim sem tóku við slitabúi Kaupþings myndi ganga að koma Arion banka í hendur nýrra eigenda. Nú séu þær línur aðeins að skýrast. Bjarni segir að honum virðist við fyrstu sýn sem þetta lýsi tiltrú manna og auki mjög líkur á að takist að skrá bankann á hlutabréfamarkað, og þar með að ríkið geti losað um sinn eignarhlut eins og stefnt hafi verið að. Í þessu séu því margar jákvæðar fréttir.

Bjarni segist ekki hafa gert neina könnun á kaupendunum, slíkt fari bara í sitt lögboðna ferli með aðkomu Fjármálaeftirlitsins. Hann segir að það séu mikil tímamót í því í sjálfu sér að útlendingar lýsi áhuga á því að fjárfesta ekki bara á Íslandi í þessu umfangi, heldur í íslenska fjármálakerfinu.

„Það eru ekki dæmi um það að erlendir aðilar hafi lýst áhuga á að fjárfesta í íslenskum fjármálafyrirtækjum, og lengi vel var það metið sem veikleikamerki, og ég held að það megi alveg segja að það sé styrkleikamerki fyrir fjármálakerfið að menn lýsi þeim áhuga í þessu tilviki.“

Bjarni segir bersýnilegt af öllum tölum um bankana að þeir standi mjög traustum fótum í dag. Með þessum viðskiptum séu Íslendingar að fjarlægjast fjármálaáfallið. Vonandi verði síðan í framhaldinu hægt að skapa grundvöll fyrir dreifða eignaraðild að íslenskum fjármálafyrirtækjum sem ætlunin sé að koma úr höndum ríkisins aftur til einkaaðila, að minnsta kosti öðrum bankanum sem ríkið á.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, segir um kaupin á Facebook að ríkisstjórnin sé algerlega óundirbúin og stefnulaus um framtíð fjármálakerfisins. Bjarni segir að frammi liggi drög að eigendastefnu fyrir ríkið í fjármálafyrirtækjum. Þar sé farið ágætlega yfir það hvaða framtíðarsýn menn hafi í þessum málum.

„Svo geta menn verið að því, án þess að ég ætli að skipta mér mikið af því, að hafa skoðanir á því hvaða einstöku aðilar eru að lýsa yfir áhuga á því að fara með eignarhlut í fjármálafyrirtækjum.“