Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, segir að hún styðji ekki frumvarp sjávarútvegsráðherra um veiðigjöld óbreytt. Taka verði frekar tillit til lítilla og meðalstórra útgerða. Afkoma þeirra sé allt önnur en þeirra stærstu.
Lilja sagði í Vikulokunum að hún teldi að skoða ætti málið í meðförum þingsins. Fleiri þingmenn hafi látið í ljós sömu sjónarmið í sínum ræðum um veiðigjöldin. „Ég held að sjávarútvegsráðherra geri sér alveg grein fyrir því,“ sagði hún.
Þú myndir ekki samþykkja þetta óbreytt? „Nei, ég myndi ekki gera það. En ég er mjög ánægð með frumvarpið að öðru leyti. Það er búið að nálgast mjög afkomutengingu í rauntíma sem allir hafa kallað eftir og ég held að þetta sé eitthvað sem við komum til með að byggja á til framtíðar. Ef þessi veiðigjöld hefðu verið síðustu tíu ár hefði heildarsumma veiðigjalda verið hálfum milljarði meiri á þessu tímabili, svo það sé sagt.“
Veiðigjaldið sé því mjög næmt á afkomu hverju sinni. Þau geti hækkað eða lækkað. „Það að fá Ríkisskattstjóra í þessa vinnu, þar er eyðublað þar sem útgerðir þurfa að fylla út í, sem hægt er að meta af hvaða reiknistofni þessi 33 prósent af hagnaði í veiðigjöld er tekið. Svo ég er bara sátt við frumvarpið að öðru leyti en því að það þarf að laga þetta varðandi litlu og meðalstóru.“
Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokkssins, sagði margt í frumvarpinu til bóta, það sé einfaldara og gegnsærra. Hún tekur undir með Lilju að skoða þurfi málið úr frá litlum og meðalstórum fyrirtækjum. „Við eigum eftir að fá umsagnir og bera það saman við ýmis útgerðarform. [...] Ég held að þetta eigi eftir að taka einhverjum breytingum.“
Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, sagði að sér litist ágætlega á frumvarpið. Með því væri kerfið einfaldað en á móti kæmi að ekki væri tekið á stöðu lítilla og meðalstórra útgerða sem standi höllum fæti.
Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar, sagði það rétt að það sé erfitt að skattleggja afkomu í hluta af starfsemi fyrirtækis sem er með samþætta starfsemi. Hann telur að frumvarpið eigi ekki eftir að leysa áratuga deilur um auðlindina. Málið í heild sinni sé dæmigerð smjörklípa, að hans mati. „Það er verið að láta þingið rífast um eiginlega smæsta atriði þessa máls sem er einhvers konar fjárhæð veiðigjaldanna. Hér er búið að rífast í á þriðja áratug um þetta auðlindagjaldsfyrirkomulag.“
Hann segist helst gera athugasemdir við að ekki sé tekið á þeim vafaatriðum sem blasi við og ekkert verið að taka á deilunni sem snúi að þjóðareign á auðlindinni, tímabundnum veiðiheimildum, sem alltaf hafi verið talið eitt af grundvallaratriðum þess að það sé hægt að tryggja þjóðareignina.