Það er mikilvægt að koma í veg fyrir fæðuskort, því annars grípa margir til örþrifaráða eins og að selja dætur í sínar í hjónaband eða vændi í skiptum fyrir mat. Þetta segir verkefnastjóri hjá Rauða krossinum sem stödd er á hamfarasvæðum í Malaví.
Það er um hálfur mánuður síðan mannskæð flóð settu allt úr skorðum á stórum svæðum í suðausturhluta Afríku. Verst er ástandið í þremur af fátækustu ríkjum heims, Simbabve, Mósambík og Malaví.
„Þetta er alltaf það sama, þetta bitnar alltaf verst á fólki sem býr við sára fátækt,“ segir Guðný Nielsen, verkefnastjóri mannúðarsviðs Rauða krossins. Guðný hefur nú dvalið í Malaví undanfarna viku.
„Hús sumra eru alveg farin, þau munu þurfa mikinn stuðning til að geta byggt aftur sitt. Lífsviðurværi þeirra er farið, uppskeran er farin, uppskerutímabilið sem hefst núna í apríl það er að miklu leyti bara horfið svo fólk sér ekki fram á að geta útvegað sér mat.“
Guðný segir að það sé bráðnauðsynlegt að koma í veg fyrir fæðuskort, hann geti haft ýmsar afleiðingar til framtíðar.
„Það sem gerist alltaf hér í þessu landi og öðrum þar sem er fæðuskortur er að fólk grípur til örþrifaráða, giftir dætur sínar mjög ungar frá sér. Ég held að það sé allt að 9% stúlkna undir fimmtán ára aldri í Malaví sem eru giftar. Þegar fólk og fjölskyldur vantar mat þá grípa þar oft til þess að þurfa að veita karlmönnum aðgang að unglingsstúlkunum sínum í skiptum fyrir mat.
Neyðaraðstoðin er margþætt.
„Táningsstúlkur sem eru byrjaðar á blæðingum, það þarf að passa að þær fái aðstöðu til að geta sinnt þeim þörfum og fengið dömubindi því stúlka á blæðingum sem hefur ekkert svoleiðis hún fer ekki í skólann. Það fylgir því mjög mikil skömm og tabú að vera á blæðingum í Malaví. Allt þetta það bitnar alltaf lang verst á stúlkunum,“ segir Guðný.
„Þannig að við erum í rauninni bara í kapphlaupi við tímann til að tryggja að þessi fæðuskortur fari ekki svo langt að þetta fari að bitna svo alvarlega á þeim. “
Rauði krossinn stendur nú fyrir neyðarsöfnun vegna náttúruhamfaranna. Hægt er að leggja söfnuninni lið með því að senda sms með orðinu HJALP í númerið 1900. Nánar má sjá upplýsingar um söfnuna hér.