Greta Thunberg, fimmtán ára stúlka frá Svíþjóð, hefur vakið heimsathygli fyrir baráttu sína fyrir umhverfismálum. Hún er barnið sem bendir keisaranum á að hann er ekki í neinum fötum. Bandaríska tímaritið Times var að setja hana á lista yfir tuttugu og fimm áhrifustu ungmenni heims, undir tuttugu ára aldri.

Sænska stúlkan Greta Thunberg hefur vakið mikla athygli á loftslagsráðstefnunni í Póllandi fyrir skeleggan málflutning. Hún segir ómögulegt að fylgja gildandi reglum ef bjarga á heiminum frá tortímingu. Það verður að breyta leikreglunum og það strax. Hún segir að í aldarfjórðung hafi umhverfissinnar mætt á loftslagsráðstefnur til að krefjast þess að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda en án árangurs. Losunin er enn að aukast. Umhverfissinnar séu því ekki komnir til þess að grátbiðja ráðamenn um breytingar, heldur tilkynna þeim um breytta tíma, hvort sem þeim líki betur eða verr. 

Snýst um tilvist lífs á jörðinni

Greta segist vonast til þess að loftslagsráðstefnan verði til þess að fólki skilji alvarleika málsins, þetta snúist um sjálfa tilvist lífs á jörðinni. Mannkynið hafi aldrei áður staðið frammi fyrir svo risavaxinni ógn. Fyrst þurfi að viðurkenna vandann og svo þurfi að taka höndum saman til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda til að bjarga því sem bjargað verður. Hún segir ráðamenn haga sér eins og ábyrgðalaus börn. Eldri kynslóðir hafi skilið allt eftir í rjúkandi rúst og það sé nýrrar kynslóðar að leysa þann mikla vanda.

Greta Thunberg segir að fjölmiðlar gegni lykilhlutverki í að vekja fólk til meðvitundar um þetta neyðarástand. Á meðan einn fótboltaleikur fái meiri fjölmiðlaumfjöllun en yfirvofandi umhverfishamfarir, verði fótboltaleikurinn mikilvægari í huga fólks. Þessu verði að breyta og fjölmiðlar verði að taka sig verulega á.

Nóbelsverðlaun fyrir gróðurhúsaáhrif

Greta Thunberg er fædd 3. janúar árið 2003, fimmtán ára aðgerðasinni í umhverfismálum. Móðir hennar er óperusöngkonan Malena Ernman og faðirinn leikarinn Svante Thunberg sem er skírður eftir forföður sínum og nóbelshafanum Svante Arrhenius sem árið 1896 varð fyrstu manna til að reikna út gróðurhúsaáhrif koltvísýrings. Greta er með asperger og segir sjálf að það sé ástæða þess að hún sjái hlutina í svart hvítu ljósi. Hún horfi í forundran á ráðamenn sem tali um að losun gróðurhúsalofttegunda geti ógnað tilvist jarðarbúa en geri svo ekkert í því. 

Skróp fyrir náttúruna

Það vakti mikla athygli í haust þegar Greta neitaði að mæta í skólann vegna aðgerðarleysis í umhverfismálum. Þann 20. ágúst ákvað hún að fara ekki í skólann allt þar til kosningar yrðu haldnar í landinu þann 9. september. Umhverfismálin eru henni í blóð borin og sumarið í Svíþjóð hafði einkennst af fordæmalausri hitabylgju og skógareldum um land allt. Hvers vegna átti hún að læra til framtíðar, þegar enginn var í því að bjarga framtíðinni? Greta krafðist þess að stjórnvöld stæðu við Parísarasáttmálann um að minnka verulega losun gróðurhúsalofttegunda. Á hverjum einasta skóladegi sat hún fyrir utan þinghúsið undir slagorðinu skólaverkfall fyrir umhverfið, eða kannski frekar skróp fyrir náttúruna. Að kosningum loknum hélt hún mótmælunum áfram fyrir utan þinghúsið á hverjum einasta föstudegi. Athæfið vakti mikla athygli og sambærileg mótmæli voru í öðrum löndum, til að mynda Hollandi, Þýskalandi, Finnlandi, Danmörku og Ástralíu. Tugir þúsunda nemenda tóku þátt í aðgerðunum í Ástralíu og hunsuðu þannig forsætisráðherra landsins, Scott Morrisson, sem sagði á þinginu að þjóðin þyrfti meiri lærdóm en minni aðgerðir.

Keisarinn í engum fötum

Nýju fötin keisarans eftir H. C. Andersen fjallar um hégómlegan keisara sem lætur blekkjast af tveimur klæðskerum. Fötin séu bara ósýnileg þeim óhæfu og heimsku. Enginn vill hljóma heimskur og enginn segir neitt fyrr en barnið bendir á hið augljósa. Keisarinn er nakinn frammi fyrir þegnum sínum. Bragð er að þá barnið finnur. Greta Thunberg segir að vissulega þurfum við á von að halda, en umfram allt sé þörf á aðgerðum og það strax.